144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

frumvörp um húsnæðismál og ríkisfjármálaáætlun.

[14:30]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Ég veit ekki hver hefur tekið ákvörðun um að deila kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Síðan vil ég ítreka og leggja áherslu á að við erum að vinna að lausn á þessum málum. Við erum að vinna að þeirri lausn í nánu samstarfi við forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga — það má ekki gleyma því þegar við tölum um stjórnvöld að þá eigum við líka við sveitarfélögin, þau skipta mjög miklu máli — og síðan við aðila vinnumarkaðarins. Ég vona sannarlega og held að allir sem eru að fylgjast með þessari vinnu voni að það samtal muni leiða til góðrar niðurstöðu í erfiðri stöðu á vinnumarkaðnum og að sjálfsögðu mun þingið síðan koma að því að lögleiða nauðsynlegar breytingar sem þarf að fara í í framhaldi af því samráði.