144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Frá því að meiri hluti atvinnuveganefndar skilaði nefndarálitinu nú í vetur ásamt breytingartillögu hefur ýmislegt gerst í þessum geira. Í fyrsta lagi hefur Hæstiréttur Íslands kveðið upp dóm, Eftirlitsstofnun EFTA hefur birt ákvörðun sína og svo hefur úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál kveðið upp úrskurð. Þessi mál tengjast öll með einum eða öðrum hætti þeim álitamálum sem þau þingmál fjalla um sem við ræðum hér í kvöld og ekki síst það hvort Landsnet geti lagt jarðstrengi á hærri spennu að óbreyttum lögum og án frekari atbeina löggjafans.

Við erum líka að tala um tímamótaúrskurð varðandi skyldu til að meta jarðstrengi og þann úrskurð þarf auðvitað að greina mjög vel. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi áhyggjur af þeim sjónarmiðum sem koma fram og hvort hann og meiri hluti atvinnuveganefndar hafi rýnt þessa úrskurði og dóma Hæstaréttar, sem má segja að komi algjörlega upp að þessu frumvarpi og þingsályktunartillögunni og fjallar beinlínis um nákvæmlega sömu mál.

Í umræðunni um kæruleiðir var niðurstaða meiri hlutans sú að leggja til að úrskurðarnefnd raforkumála væri sá aðili sem álitamálum væri beint til. Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða rök hann telji standa til þess að hér sé ekki frekar lagt til að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fari með þessi mál þar sem sú úrskurðarnefnd fjallar miklu meira um skipulagsmál, þau álitamál snúa fyrst og fremst að skipulagsmálum en ekki málum sem falla sérstaklega undir raforkumál sem slík. Ég vil heyra hvort hv. þingmaður hafi einhverjar röksemdir sem mæla frekar með þessari kæruleið en hinni.