144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:41]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar líka aðeins til að forvitnast um það hvort það hafi verið rætt í nefndinni hvort ekki verði örugglega með einhverjum hætti tryggt að almenningur fái aukna fræðslu um lyfjanotkun. Það má búast við því að lyfjanotkun muni kannski aukast. Væntanlega vilja menn auglýsa í sjónvarpinu vegna þess að það hefur áhrif og eykur sölu. Ýmis lausasölulyf eins og bólgueyðandi lyf og verkjalyf geta haft slæm áhrif á til dæmis meltingarveg. Það eru alltaf aukaverkanir af öllum lyfjum, við vitum það. Hefur það þá eitthvað verið rætt að landlæknisembættið fari í átak til að upplýsa fólk um að lyf ætti alltaf að nota af ýtrustu varúð?

Mér fannst áhugavert að lesa viðtal við landlækni sem sagðist helst ekki taka lyf nema hann þyrfti þess. Þannig tala flestir í þessum geira sem eitthvað vita. Mér finnst það skipta miklu máli sem og það sem ég var að tala um áðan, að aukaverkanir lyfja ættu að sjálfsögðu að koma fram í auglýsingunni. Alveg eins og við setjum varúðarmerki á sígarettur ættum við að setja þau á lyfin. (Forseti hringir.) Ég mundi vilja heyra álit hv. þingmanns á því.