144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. velfn. (Páll Jóhann Pálsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Það væri ekki vanþörf á að auka upplýsingar. Það er frumvarp í meðförum nefndarinnar sem heitir lyfjagát þannig að þar er verið að taka á þeim málum og stuðla að meiri upplýsingum til almennings.

Ég er sama sinnis og landlæknir og geri ráð fyrir að flestir séu þannig að menn taki ekki lyf nema þeir þurfi þess. Ég geri ekki ráð fyrir að fólk taki lyf í tíma og ótíma án þess að hafa virkilega þörf fyrir það. Ég þekki engan sem tekur lyf bara upp á grín eða af því að honum finnst það gott á bragðið. Ég tek undir með hv. þingmanni, við þurfum að auka upplýsingar til almennings og uppfræða almenning um lyf almennt. (Forseti hringir.) Í rauninni notum við allt of mikil lyf á Íslandi og við þurfum að vinna markvisst að því að minnka þá notkun.