144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

afskipti ráðuneytis af skipan stjórnarformanns fjármálafyrirtækis.

[11:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi þurft að laga sig að veruleikanum í gjaldeyrishöftunum þá segja hans eigin orð meira en þúsund orð um það hversu óraunhæfar hugmyndir ríkisstjórnin hafði í þeim efnum. Sífelldar frestanir og feluleikur með tillögur eykur ekki trúverðugleikann í þessum málum. Það hefur verið sýnd mikil þolinmæði í tvö ár og ég spyr fjármálaráðherra hvort hann ætli enn einu sinni að segja hér í dag að tillögurnar komi í næstu viku.

Virðulegi forseti. Ég kom hingað upp til að spyrja um annað og alvarlegt mál. Það eru yfirlýsingar Bankasýslu ríkisins um að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi reynt að hafa áhrif á skipan stjórnarformanns í fjármálastofnun sem Bankasýslan hafði umsjón með, en sem kunnugt er á Bankasýslan að tryggja að pólitíkin sé ekki að vasast í bönkum landsins og því síður stjórnarformennsku þeirra. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Var þetta að hans undirlagi? Var hæstv. fjármálaráðherra að hlutast til um það með atbeina embættismanns síns hver yrði gerður að stjórnarformanni í tilteknum sparisjóði? Er það rétt sem fram kemur hjá Bankasýslunni að þetta hafi gerst og ef svo er, til hvaða ráðstafana telur hæstv. ráðherra eðlilegt að grípa? Um þetta var fjallað á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun og ég verð að segja að þetta eru algjörlega sláandi fréttir ef réttar eru.