144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina yfir samgönguáætlun fyrir næstu fjögur árin. Það er tvennt sem mig langar að taka upp við ráðherra. Annars vegar vil ég fagna því að hér sé framlag, samkvæmt samkomulagi milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu og rekstur almenningssamgangna við ríkið. Áætlaðar eru 896 millj. kr. árlega fram til ársins 2018. Samkomulagið kvað á um milljarð og auðvitað munar um þá fjármuni sem þar eru á milli, en ég er mjög sátt og ánægð með að þetta framlag skuli vera þarna.

Síðan er það Sundabraut sem ekki er áætlað fjármagn í, enda er þá talað um mögulega einkaframkvæmd. Ég hélt að það væri sátt um að Sundabraut væri ekki á dagskrá. Ég hélt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru að líta til þess að byggja upp kerfi léttlesta og (Forseti hringir.) hraðvagna sem er ódýrara en Sundabraut. Ég spyr hvort ráðherra hafi átt í samræðum um það við sveitarfélögin.