144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[14:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er ekki vafi á því að samgöngur eru grunninnviðir þjóðfélagsins og skipta gífurlega miklu máli fyrir allt fólk í landinu, hvar sem það býr. Það skiptir máli hvernig fólk kemst heim til sín og að heiman og að allar samgöngur séu skipulagðar í einni heild þannig að ekki sé eingöngu litið á vegakerfið en að til dæmis flug sé eitthvað allt annað, heldur sé litið á þetta allt í hinu stóra samhengi. Það hefur vissulega verið gert á síðari árum, reynt að tengja samgöngukerfin öll betur saman. Ég efast ekki um að það sé af hinu góða.

Við getum alltaf deilt um það hvort meira eða minna fé fer til samgangna og örugglega viljum við öll að það fari mikið fé og sumir vilja meira og við getum þrasað um hver hafi slegið heimsmet, hvort það hafi verið þessi ríkisstjórn eða einhver önnur ríkisstjórn. Það sem máli skiptir held ég að sé að þeim peningum sem eru veittir til þessara mála sé sem best varið.

Í hugum okkar flestra eigum við við vegi þegar við tölum um samgöngur en þær eiga náttúrlega líka við um flugleiðir og annað, þegar opnaðar eru nýjar leiðir í samgöngum er oft mjög erfitt að spá fyrir um eftirspurnina eftir þeim leiðum. Ég minnist þess að einhvern tímann í kringum 1990, held ég að það hafi verið, var ég að keyra yfir brúna yfir Ölfusárósa, sem ég held að hafi verið tekin í notkun 1988, og í því var mér bent á tölur um það hvað umferðin yfir þá brú væri mikil miðað við það sem spáð hafði verið. Hún var margföld. Eðlilega reyna menn að gera áætlanir varlega en þegar ný leið opnast er allt í einu fullt af fólki sem vill fara þá leið. Hið sama gerðist til dæmis með Hvalfjarðargöngin, það varð miklu meiri umferð um þau en áætlað hafði verið. Þetta gerir það að verkum að oft þarf djörfung til að ráðast í nýjar framkvæmdir eða opna nýjar flugleiðir, vegna þess að það er erfitt og þætti óvarlegt að spá gífurlegri aukningu. En á sama tíma held ég að það hafi líka háð okkur svolítið í því að fara vel með fjármunina eða að þeir nýttust sem best í nýframkvæmdum að við horfum í peninga við rannsóknir. Ég held að eina ástæðan fyrir því að kostnaður við samgöngumannvirki fari oft fram úr áætlun sé sú að við rannsökum ekki nóg. Auðvitað er ekki hægt að rannsaka út í hið endalausa, ég er alveg sammála því, en við eigum ekki að spara við rannsóknir þegar við förum í nýframkvæmdir vegna þess að ef við eyðum aðeins meira þar eru líkur á því að lendum við ekki í mjög miklum umframkostnaði.

Þetta vil ég segja almennt.

Varðandi þá áætlun sem hér liggur fyrir fagna ég því að bæta á í vetrarþjónustu og viðhald vega. Auðvitað verður að bæta í vetrarþjónustuna vegna þess að veturnir eru öðruvísi en þeir hafa verið. Ég átta mig ekki alveg á því, það kom fram í ræðu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hvort þær 1.800 milljónir sem verið er að setja inn núna eru hluti af þessari auknu vetrarþjónustu eða hvort það er hérna inni. Ég veit svo sem ekki um það, en ég fagna því og ég fagna líka því að af þeim 1.800 milljónum sýnist mér 500 milljónir eiga að fara í höfuðborgarsvæðið. Sama hvaðan þeir peningar koma fagna ég því og það hlýtur að fara í viðhald vega, vegna þess að við verðum líka að átta okkur á því að það eru ekki bara veturnir sem gera þetta erfitt. Hér hefur umferð aukist svo gífurlega vegna allra ferðamannanna sem koma til landsins. Við erum alltaf að tala um náttúrupassa og ríkisstjórnin þarf að taka 850 milljónir og gott hjá henni að gera það til að fara inn á ferðamannastaðina, en almáttugur minn, virðulegi forseti, álagið sem umferð ferðamanna hlýtur að hafa á vegakerfið á Íslandi. Það hlýtur að vera alveg gífurlegt. Mér finnst við þurfa að hugsa um það þegar við tölum um viðhald á vegum.

Svo vil ég segja í því sambandi að það er synd hvernig innanlandsflug er skipulagt. Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í þá sálma en ég held og það er mín skoðun að vegna þess að innanlandsflugið er allt frá Reykjavík, eða að megninu til, kannski með einstaka undantekningum, nýta erlendir ferðamenn sér ekki innanlandsflugið eins og þeir mundu hugsanlega gera ef meiri væri flogið út frá Keflavík. Þá gætu ferðamenn hugsanlega skipt þar um vél, flogið til Akureyrar og keyrt í bæinn, eitthvað svoleiðis, en ekki alltaf öllum sópað inn til Reykjavíkur til að keyra gullna hringinn. Ef þeir færu norður gætu þeir keyrt demantshringinn, mér finnst gott hjá Norðlendingum að vera búnir að finna það orð upp á þeirra ferðamannaleið. Við eigum gullhring en þeir eiga náttúrlega demantshring fyrir norðan. Það var nú ágætt.

Við þingmenn í Reykjavík höfum oft verið sökuð um að vera ekki nógu miklir kjördæmapotarar og að við sköffum ekki fé til samgangna í Reykjavík eins og gert hefur verið. Það kom fram í andsvörum áðan að Reykjavíkurborg hefði afsalað sér einhverjum peningum, ég held að það hafi verið til að byggja mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Ég vil þakka Reykjavíkurborg fyrir að hafa afsalað sér þeim peningum. En ég fagna mjög þessari áætlun sem var gerð, var það ekki 2012? Hún var um almenningssamgöngurnar og um að veita 900 milljónir á ári til almenningssamgangna, til að auka þær og til að fjölga stofnbrautum og hjólreiðastígum og öðru slíku. Við sjáum í höfuðborginni að umhverfið hefur breyst gífurlega, hvernig fólk ferðast, og það er að mínu mati allt til hins góða. Ég hef miklar efasemdir um Sundabraut og að hún eigi að fara í einkaframkvæmd og fólk eigi að borga í hvert skipti sem það fer þar um. Ég treysti hæstv. innanríkisráðherra til að eiga náið og gott samstarf við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þá framkvæmd og hvort það er akkúrat það sem við viljum eyða peningunum í hér.

Í öllum framkvæmdum þarf líka að fara varlega. Í gær var kveðinn upp í Hæstarétti merkilegur dómur þar sem þeir sem mótmæltu veginum á Álftanesi í gegnum Gálgahraun og fengu skilorð í tvö ár þurfa ekki að borga þá sekt sem héraðsdómur lagði á þá. Það segir mér að það var of hart fram gengið gagnvart þeim sem mótmæltu veginum á sínum tíma. Það þarf líka að passa þegar vegir eru lagðir (Forseti hringir.) og framkvæmdir gerðar að hlustað sé á fólkið og tekið tillit til vilja þess um að færa veginn 500 metra til eða frá.