144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan þá kemst maður ekki yfir mikið í tíu mínútna ræðu plús fimm mínútur. Þess vegna ætla ég að nota þessar fimm mínútur til að fara fljótt yfir sögu, þótt ég sleppi nokkrum svæðum vegna tímaskorts.

Ég ætla að taka vestursvæðið og þar er ánægjulegt að sjá í áætluninni að við erum að klára veginn frá Eiði til Kjálkafjarðar og síðan er kafli um Gufudalssveit og eru áætlaðir nokkuð miklir peningar í það. Þó svo að kostnaðaráætlun sé óviss ætla ég að taka undir að það er jákvætt vegna þess að þetta er eilífðarmál, vegurinn um Teigsskóg, og vil lýsa því yfir að ég er mjög ánægður með úrskurðinn sem kom um daginn og segi það alveg hiklaust líka að ég er mjög ánægður með það hvernig Vegagerðin vinnur að þessu og ánægður með þá leið sem er búið að leggja til þar sem lítið er farið í Teigsskóg. Það er ekki rétt að við séum að fara í gegnum Teigsskóg, við erum að fara ofan við hann og allar þær mótvægisaðgerðir sem hafa verið áætlaðar ættu að vera þannig að ég trúi ekki öðru en að um þetta sé hægt að skapa sátt.

Það hefur komið í ljós, sem mér var ekki alveg ljóst í byrjun þegar ég flutti mína ræðu, að þær 1.800 millj. kr. sem ríkisstjórnin samþykkti loksins að bæta inn í áætlunina og settu nú aðeins meira kjöt á beinið sem betur fer, annars hefði þetta verið samgönguáætlun um nánast ekki neitt eins og ég sagði áðan — það er ekki búið að bæta þeim hér inn. Það eru kannski tæknilegar ástæður fyrir því. Það er löngu búið að samþykkja samgönguáætlun í stjórnarflokkunum og þá hefði þurft að fara annan hring þannig að ég gagnrýni það ekki en ég vil vekja athygli á því að þessir peningar eru sem sagt ekki inni í áætluninni.

Ég fagna því að þarna fæst meiri fjárveiting til Dettifossvegar til að uppfylla það loforð sem svikið hefur verið síðastliðin eitt eða tvö ár til að halda áfram, þótt töluvert vanti upp á að klára þá 30 kílómetra sem eftir eru en mér sýnist upphæðin duga fyrir 7 til 10 kílómetrum. Ég fagna því. Ég vil nefna eitt í viðbót og ítreka það sem ég sagði um Gufudalssveit og Teigsskóg, að það er mjög mikilvægt fyrir sunnanverða Vestfirði að klára þá framkvæmd og eiginlega til skammar hvað þetta hefur tekið rosalega langan tíma.

Síðan ætla ég að snúa mér að norðaustursvæðinu þaðan sem ég kem og ég hef sagt það áður að mér finnst það bara mjög eðlilegt að þingmenn tali um sín svæði og skiptist hér á skoðunum. Menn eiga að vera sérfræðingar í sínu svæði og fara í gegnum það. Hér eru settar 200 millj. kr. í öryggisaðgerðir á Akureyri sem ekki veitir af. Sem dæmi þá eru umferðarljósin í raun og veru það lítil að maður sér þau varla þegar maður eldist þannig að ljósin verða vonandi stækkuð og gerð bragarbót þar, sem er sannarlega þörf á. En ég verð jafnframt að nefna varðandi þetta svæði að það er ekki minnst á kísilver og ekki nefndur kaflinn á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar sem er eiginlega mjög slæmt vegna þess að það voru gefin loforð um að komið væri að því svæði. Það dettur hins vegar hér út og það finnst mér miður.

Sama má segja um Borgarfjarðarveg sem er búið að færa alveg aftur til 2018, hann fær þá 250 millj. kr., og Axarvegur er auðvitað ekki inni. Hins vegar vil ég fagna því að Berufjarðarbotn er þarna inni og upphæð sem á að duga til að vinna á þremur árum að því að klára malarkaflann á því svæði sem er eini malarkaflinn sem eftir er, ef við segjum að þar förum við um hringveginn þótt við tökum ekki allt saman þar inn. Þetta verður mikil bragarbót og hefði auðvitað þurft að vera búið að gera fyrir lifandis löngu en það er eins og gengur. Það þarf að velja og forgangsraða og í okkar hópi hefur það verið þannig en ég fagna því að þessi framkvæmd sé inni.

Virðulegur forseti. Þetta vildi ég segja í minni fimm mínútna ræðu en eins og ég sagði áðan var það mitt mat að þegar þingsályktunartillaga um samgönguáætlun loksins kom fram ætti að ræða hana sem allra fyrst. Þess vegna eru menn ekki að tala hér um lengri tíma vegna þess að það er mikilvægt að koma málinu til umhverfis- og samgöngunefndar til að fara í gegnum það. En ég vil ítreka að þrátt fyrir að ég fagni þeim 1.800 millj. kr. sem komu loksins inn, örugglega eftir tog, vil ég segja, hæstv. innanríkisráðherra við fjármálaráðherra í heilan mánuð, það gaf af sér þessar 1.800 millj. kr., þá eru þær viðbætur ofan á ákaflega lítið.

Það eru margir fleiri þættir sem ég hefði viljað ræða við fyrri umr. en nú gengur málið til nefndar og vonandi vinnur hún málið hratt og vel, það kemur til síðari umr. og þá höfum við meiri tíma til að ræða þessa áætlun.