144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:18]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara taka það fram að þess var óskað sérstaklega af okkur í minni hluta samgöngu- og umhverfisnefndar að Ragna Árnadóttir, sem leiðir hina svokölluðu Rögnunefnd sem á að fjalla um framtíðarstaðsetningu flugvallarins, yrði fengin til þess að koma á fund nefndarinnar. Það gerðist ekki. (HöskÞ: Það var reynt að ná í hana.) Já, ég veit að hv. þingmaður reyndi að ná í hana (HöskÞ: Hún var erlendis.) og hún var erlendis, (HöskÞ: Já, hún var erlendis.) Og hvað ef fleiri gestir eru erlendis? Hvað ef fleiri umsagnaraðilar komast ekki á fund nefndarinnar? Eru mál þá bara samþykkt af því að það eru einhverjir í útlöndum? (Gripið fram í.) Ætlar hv. þingmaður að segja það við bæjarstjórnina á Akureyri og Egilsstöðum: Já, við tókum af ykkur skipulagsvaldið, því miður, þið voruð í útlöndum á meðan. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Það á ekki að afgreiða meiri háttar breytingar með þessum hætti. Þegar hv. þingmaður heldur því fram að gestakomur hafi verið með eðlilegum hætti þá er það alveg rétt þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli, (Forseti hringir.) en breytingin sem kynnt var í morgun (Forseti hringir.) sem var þannig að það sást (Forseti hringir.) ekki í skjalið fyrir „track changes“, (Forseti hringir.) það hefur enginn fjallað um þær breytingar, engir gestir, engar umsagnir, bara geðþóttaákvörðun meiri hluta nefndarinnar.