144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

fjármögnun aðgerða vegna kjarasamninga og skýrsla um skuldaleiðréttingu.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi fjármögnun þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir. Það er ljóst að með hækkandi tekjum landsmanna mun ríkið njóta hærri skattgreiðslna og hefur svigrúm til þess að gefa eitthvað eftir af þeim sköttum, auk þess sem við höfum sagt að fyrri áform um lækkun tryggingagjalds þurfi að bíða á meðan við leggjum áherslu á lækkun tekjuskattsins. Um það var ágætissamráð við Samtök atvinnulífsins og aðila vinnumarkaðarins almennt, en í ríkisfjármálaáætlun sem liggur fyrir þinginu var ráð fyrir því gert á tekjuhliðinni að tryggingagjaldið mundi lækka í áföngum um allt að 5 milljarða á ári. Það kemur þá til móts við tekjutap af tekjuskattslækkuninni, en áætlanir um tekjutap af slíkum aðgerðum eru mjög ónákvæm vísindi. Við erum að skoða þær tölur í raun algjörlega í tvívíðum heimi og berum saman: Ef við erum með þennan launastokk og setjum þennan skatt, hvað kemur út úr því? — Ef við lækkum skattinn, hvað kemur þá út úr því? Þannig eru tölurnar fundnar út. Í raunheimum þar sem við lifum gerast hlutirnir ekki alveg með svona einföldum hætti heldur verða tekjur eftir hjá heimilunum og fara aftur inn í hagkerfið og skapa tekjur fyrir ríkið, t.d. í virðisaukaskattskerfinu og annars staðar, og jafnvel er fólk tilbúið til þess að leggja meira á sig við lægri skattprósentu sem mun líka skila sér til baka.

Varðandi skýrsluna, svörin, þá hef ég verið að spyrjast fyrir um það hvort við séum komin með fullnægjandi upplýsingar í kerfunum hjá okkur til þess að veita (Forseti hringir.) þessi svör og það er verið að vinna í því að taka (Forseti hringir.) þau saman. Ég á eftir að fá endanlegt svar við því hvort það þurfi að bíða eftir álagningu ríkisskattstjóra, en (Forseti hringir.) ég hygg að við séum með betri upplýsingar núna en ég hafði á þeim tíma sem fyrirspurnirnar bárust þinginu.