144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það verður að viðurkennast að það biðu allir með svolítilli eftirvæntingu eftir formannafundinum fyrr í dag. Það lagði vöffluilm um húsið og menn gengu með vöfflur og rjóma og sultu og fínerí hérna, fjármálaráðherra og fleiri, og allir brostu út í annað af því að menn héldu að þetta væri eins og í Karphúsinu, það lægi eitthvað í loftinu og nú væri eitthvað að gerast, að þessi fundur væri þýðingarmikill. Svo kemur annað á daginn. Það er engin innstæða fyrir neinum vöfflum í dag. Listinn sem var lagður fram er bara listi yfir það sem er í nefndunum og allir vissu fyrir, allt undir. Ég hélt að við værum komin fram yfir starfsáætlun og við værum farin að forgangsraða. Það er auðvitað í höndum stjórnarmeirihluta hverju sinni þegar menn eru komnir á þennan stað að fara að forgangsraða. Nú verður hæstv. forseti að fara að taka á sig rögg og láta menn vinna eins og þeir eiga að gera í stjórnarmeirihluta hverju sinni, hvort sem hæstv. ráðherrar heita Sigmundur eða Bjarni Ben.