144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höfum átt ágætisumræðu um þetta mál sem er ráðstöfun á þeim hluta sem ekki er kvótasettur í aflamarkskerfinu, þeim 5,3% sem er eins konar mótvægi við það markaðsdrifna kerfi sem við búum við í dag, svokallað kvótakerfi sem hefur lengi verið gagnrýnt mikið. Ég tel að þetta hlutfall þyrfti að vera stærra, en þar með er ég ekki að skrifa upp á það að ég sé ánægð með þetta kvótakerfi eins og það er. Mér finnst það hafa sýnt að það hefur leikið margar byggðir illa og ekki verið endilega þjóðhagslega hagkvæmt þegar upp er staðið vegna hliðarafleiðinga sem það hefur haft og kostað mörg byggðarlög gífurlega fjármuni. Menn gleyma því oft þegar horft er í það að reyna að ná sem mestum arði út úr þeirri auðlind sem við, þjóðin, eigum, þ.e. fiskimiðunum okkar, að það er kannski ekki alveg sama hvernig gæðunum er skipt og í hvaða hendur arðurinn rennur þegar upp er staðið. Ég held að við eigum að horfa til þess þegar við ræðum leiðir við að úthluta nýrri tegund eins og makrílnum að fara ekki út í óhefta markaðshyggju í uppboðsleið, eins og hefur svo sem verið minnst á hér. Við eigum að reyna að finna einhverja aðra leið, blandaða leið sem hefur möguleika á því að greinin verði opnari fyrir nýliðun og möguleikum fyrir fleiri, ekki bara stærstu útgerðir, heldur millistærðir af útgerðum og minni útgerðum, þannig að einhver sátt skapist um nýtingu fiskimiðanna og fleiri hafi möguleika á að hafa aðgengi og tekjur af fiskimiðunum.

Þegar talað er um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og að ná eigi sem mestum arði og fullu gjaldi hugsa ég oft um jarðhitann á Íslandi. Ég tel að slík auðlind sé líka eitthvað sem við sem þjóðarsamfélag eigum að fá að njóta góðs af þótt það sé misskipt milli landshluta hvar jarðhitinn er, við gætum alveg eins sagt að við ættum að bjóða upp þá auðlind og reyna að ná sem mestum arði og nýta hann síðan í framhaldi af því til upphitunar húsa fyrir almenning í landinu. En við höfum kosið að nýta þá auðlind fyrir okkur sem samfélag til að almenningur í landinu fái ódýra kyndingu eða upphitun á húsum sínum og ódýrara rafmagn og til dæmis almenningssundlaugar. Svo mætti áfram telja. Ég tel að hægt sé að sameina arðsemissjónarmið og réttlátt kerfi hvort sem það er í þessu eða öðru og ég tel að við eigum að horfa til þeirrar reynslu af fiskveiðistjórnarkerfinu þegar við horfum til byggðaaðgerða og með hvaða hætti við getum gert byggðirnar sjálfbærar. Ég held að það sé svo mikilvægt að byggðirnar verði ekki einhverjir bónbjargarmenn sem þurfi að leita til ríkisvaldsins á hverju ári til að fá stuðning í formi fjármuna til að leita að öðrum leiðum til að skapa atvinnu í byggðarlagi sínu. Við þurfum að auka fjölbreytni í atvinnu, vinna að því og nýta fjármunina sem eru afrakstur af nýtingu sjávarauðlindarinnar svo að hægt sé að nýta þá í þessum byggðum og byggja upp fleiri stoðir. En við þurfum að hafa þennan grunn sem er sjávarútvegurinn í þeim minni byggðarlögum sem hann hefur verið uppspretta þess að þar er byggð yfir höfuð. Þar er fjölmargt fólk sem hefur ekki haft neitt um það að segja þegar lífsbjörgin er tekin af því. Ef fólk er skilið slyppt og snautt eftir og þarf að fara frá eignum sínum og í aðra landshluta til að reyna að byggja sig upp með ekkert í höndunum, þá er ekki boðin nein 110%-leið eða neinn stuðningur af hendi stjórnvalda til þessa fólks. Ég held því að að mörgu sé að hyggja þegar við ræðum þessi stóru og brýnu mál.