144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fylgjandi útfærslu sem stjórnlagaráðið lagði fram. Það er ekki víst að ég skilji hv. þingmann nákvæmlega, hann kemur þá bara með ítarlegri spurningu í næsta andsvari, en það sem mér finnst skipta máli er að í stjórnarskrá verði lýst ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindunum og þar sé áskilið að nýtingarrétti verði aðeins úthlutað á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma gegn fullu gjaldi og með gagnsæjum og hlutlægum hætti. Og það á enginn nýtingarleyfi, það er ekki hægt að mynda eignarrétt, en það er hægt að veita leyfi til hóflegs tíma og gegn fullu gjaldi. Við hljótum að ganga út frá því þegar við leggjum áherslu á að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrána. Ákvæðið er ágætlega útfært af stjórnlagaráði og ég vona svo sannarlega að sú nefnd sem er að vinna núna með stjórnarskrána komi með tillögur sem byggja á þeirri vinnu og að við getum síðan kosið um þetta um leið og við kjósum forseta á árinu 2016.