144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kemur alltaf með dálítið skemmtileg andsvör og skemmtilega sýn á hlutina og nálgast þá á svolítið annan hátt en þeir sem verið hafa hér lengur og eru kannski búnir að vera nokkur þing eða ansi mörg þing í nefndum sem fjallað hafa um fiskveiðistjórnarkerfið. Hv. þingmaður ræðir meðal annars um hvort gera eigi veiðar strandveiðibáta frjálsar. Fyrir kannski fimm árum, jafnvel sex til átta árum, hefði ég sagt: Já, vafalaust væri það betra og það hefðu menn átt að gera. En núna, í hinum harða heimi sem gerir miklar kröfur til sjálfbærni og umhverfisvænna veiða, sérstaklega hvað varðar sjálfbærni og alls konar kröfur sem gerðar eru til okkar sem og annarra þjóða — þó að kannski förum við meira eftir þeim en ýmsir aðrir, ég held að við göngum betur um fiskimiðin en ýmsar nágrannaþjóðir okkar — þá stundum við það sem við köllum sjálfbærar veiðar. Það sem ég óttast við frjálsa sókn er að samtök sem berjast fyrir sjálfbærum veiðum og hafa áhyggjur af því að menn stundi ofveiði mundu taka upp baráttu gegn okkur jafnvel þó að það væru umhverfisvænar veiðar á krók.

Þess vegna er svarið við því núna: Ég held að sá tími sé liðinn að frjálsar veiðar smábáta á einhverjum ákveðnum svæðum verði gerðar frjálsar. Ég spyr: En hvernig gætum við stöðvað einhvern í að gera það? Við getum það ekki. Það yrðu allir að sitja við sama borð hvað það varðar og þannig gæti orðið óheft aðgengi. Þess vegna held ég, og það er svar mitt, að það sé betra að efla strandveiðihlutann og vinna þá betur að útfærslu á því kerfi, eins og ég gerði að umtalsefni áðan í andsvari við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.