144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Samkeppniseftirlitið, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefnir, bendir á mikilvægi sjálfstæðra eftirlitsstofnana og að að því sé hugað við alla stefnumótun í málefnum Stjórnarráðsins. Þá komum við að 6. gr., sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði að umtalsefni hér áðan, en í síðari hluta þeirrar greinar segir:

„Jafnframt er heimilt að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem eru starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Slíkum starfseiningum stýrir embættismaður, í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.“

Þarna er enn og aftur mjög opin grein og væntanlega er verið að opna á að stjórnsýslustofnunum sé breytt þannig að þær verði hluti af ráðuneytum, að þær verði ráðuneytisstofnanir. Það er rökstutt í greinargerðinni að það yrði til þess fallið að efla stjórnsýslu ráðuneyta.

Við getum líka velt fyrir okkur öðrum sjónarmiðum í þeim efnum. Sem dæmi get ég tekið umdeilt frumvarp, sem liggur fyrir, um Þróunarsamvinnustofnun. Þar er um að ræða sjálfstæða stofnun sem vissulega fer með ákveðna stjórnsýslu í umboði ráðuneytisins til að sinna tilteknum verkefnum. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt til að þessi stofnun verði samlöguð utanríkisráðuneytinu.

Ég spyr: Er með þessari grein verið að hafa opna heimild fyrir því að slíkar stofnanir verði hluti af ráðuneytunum? Og þá er miklu meiri nálægð við hið pólitíska vald. Það er auðvitað sérlega viðkvæmt í tilfelli eftirlitsstofnana eins og hv. þingmaður bendir hér á. En við getum líka spurt okkur hvort það sé eðlilegt að ráðuneyti séu í daglegum framkvæmdum á borð við þá sem verið er að leggja til með breytingunum um Þróunarsamvinnustofnun?