144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítil uppgjöf í því þegar forseti segir: Við þekkjum það að þetta hefur verið svona og mun alltaf verða svona. Og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem má hrósa fyrir að vera hér og taka til máls, gerir lítið úr því að við ræðum um fundarstjórn forseta og segir að við eigum að ræða málefnin. Já, við skulum ræða málefnin, ágæti þingmaður og virðulegur forseti, það er alveg sjálfsagt, en þá verður að leggja fyrir okkur raunhæfa áætlun. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir veit náttúrlega miklu betur en að halda að það sé raunhæft að við klárum 70 og eitthvað mál á kannski þremur vikum. Það vita allir heilvita menn og þess vegna er alveg nauðsynlegt að það komi fram áætlun sem stenst almenna skynsemi.