144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sem verið sammála hv. þingmanni um það að einhverju leyti. Við getum alveg sleppt því að nota nafn hæstv. forsætisráðherra ef fólki líður eitthvað betur með það. Við getum alveg sleppt því alfarið að tala um persónu hans. Við getum alveg eins sagt hæstv. forsætisráðherra og við mundum lenda í sömu spurningum og svarið væri hið sama. Er hæstv. forsætisráðherra almennt treystandi fyrir því að ákveða sjálfur framþróun siðareglna? Að mínu mati: nei. Með hliðsjón af hegðun hæstv. forsætisráðherra, óháð því hver það er, er svarið tvímælalaust nei.

Það er hins vegar mikilvægur punktur sem hv. þingmaður kom inn á, sem er að við eigum almennt ekki að gera ráð fyrir tilteknum persónum á valdastóli. Þegar kemur að völdum verðum við að mínu mati alltaf að hafa í huga að það geta komið verri valdhafar seinna, þannig að jafnvel þótt við lítum fram hjá þeim hæstv. forsætisráðherra sem nú situr og jafnvel þótt við lítum fram hjá fyrri hæstv. forsætisráðherrum, sem ég treysti heldur ekki endilega fyrir þessum völdum, verðum við alltaf að hugsa með okkur: Hvernig fer einhver annar hæstv. forsætisráðherra með þetta vald síðar? Það er spurning sem við getum ekki svarað og það er ein af ástæðunum fyrir því að við eigum alltaf að vera á bremsunni gagnvart því að auka vald hæstv. ríkisstjórnar, hvort sem það er þessi ríkisstjórn eða einhver önnur.

Ég get svo sem tekið undir það með hv. þingmanni að við eigum ekki að spyrja að því hvort þessari persónu sé treystandi frekar en annarri. En í pólitíkinni berum við nöfn; ég er kallaður Helgi Hrafn Gunnarsson í fjölmiðlum, sömuleiðis er hæstv. ráðherra nefndur með nafni, það er talað um hann sem persónu og mig og okkur öll. Mér finnst það í sjálfu sér aukaatriði þegar kemur að þessari umræðu vegna þess að við getum alveg eins notað orðið hæstv. forsætisráðherra eða hv. þingmaður og það kemur í sama stað niður. Við erum hvort sem er alltaf að meta fólk út frá persónueinkennum þess og hegðun þannig að alltaf þegar við spyrjum okkur hvaða traust við berum til ríkisstjórnarinnar eða hins háa Alþingis verðum við að átta okkur á því að við erum að tala um fólk, (Forseti hringir.) persónur með vald. Það er hættulegt.