144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég var í spurningu minni ekki að ræða um siðareglurnar sem slíkar, sem er 8. gr. lagafrumvarpsins, heldur var ég að ræða 2. gr. frumvarpsins sem við erum að ræða. Hv. þingmaður kom svo vel inn á það í ræðu sinni, hún var að ræða afturför og hrunið, að það skorti formfestu hér, og það var meðal annars niðurstaða í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í því ljósi að um afturför sé að ræða þá fór ég í lög um Stjórnarráð Íslands og þar er III. kafli 6. gr., sem 2. gr. í frumvarpinu hefur áhrif á. Ég fæ ekki betur séð en hér sé þvert á móti verið að skýra og bæta formfestuna. Við hv. þingmaður erum saman í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ræddum við mikið um þessi gildislægu hugtök, mikilvægi, hvað er mikilvægt og hvað er síður mikilvægt, og alla afmörkun — um leið og við förum að afmarka mikið í lögum þá er tilhneiging til að eitthvað falli á milli þilja ef við getum orðað það þannig. Við vorum að kljást við þessi hugtök og þess vegna meðal annars fylgir breyting nefndarálitinu, og bæði meiri hluti og minni hluti voru sammála um að gera þá breytingu. Ég fæ ekki betur séð en við séum að auka á formfestuna og útskýra hlutina betur með þessari breytingu í frumvarpinu sjálfu, ef hún gæti bent mér á hvernig hún fær séð að um afturför sé að ræða.