144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst æsingurinn fullmikill í þessu andsvari frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég veit svo sem ekki hvar ég á að byrja í því en hann fór yfir þetta í ræðu sinni og beindi til mín fyrirspurn, hvort ég væri að tala fyrir því að það mætti reka og ráða opinbera starfsmenn eins og hvern og einn lysti. Ég talaði aldrei um það. Ég var að bera saman stöðuna á almenna vinnumarkaðnum, þar sem ekki þarf að vera nein ástæða fyrir brottvikningu úr starfi, og svo hitt að réttarstaða opinberra starfsmanna er svo langtum sterkari til starfa hjá ríkinu og hjá sveitarfélögunum, enda er það mjög vinsælt.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið að þessu leyti því að við vitum líka að aðalgulrót þess að vera opinber starfsmaður er hinn ríkistryggði lífeyrissjóður sem er mun betri en lífeyrissjóðirnir á almenna vinnumarkaðinum. Það er greitt 15,5% inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins með hverjum starfsmanni og það var alveg réttlætanlegt á sínum tíma þegar ríkisstarfsmenn voru með mun lægri laun en launþegar á almenna markaðinum. En á þessu ári og því síðasta höfum við séð að laun opinberra starfsmanna eru orðin býsna samkeppnishæf við laun á almenna markaðinum. Það var nú bara það sem ég var að segja.

En ég vísa því á bug að ég hafi verið að mælast til þess að hægt væri að reka opinbera starfsmenn án málefnalegrar ástæðu. Það er misskilningur hjá þingmanninum ef hann hefur skilið orð mín þannig.