144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að jafnvel þó svo að ítarlegar leiðbeiningar væru um það hvernig fara ætti með þetta innan forsætisráðuneytisins teldi ég engu að síður að hér værum við að setja málið á vitlausan stað. Það væri til bóta og gerði lögin miklu skýrari ef einhver útlistun um verklag fylgdi með, það væri vissulega skárra, en það mundi ekki gera mig hlynnta breytingunni.

Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni að við þurfum svo virkilega á því að halda að almenningur hafi traust á stjórnsýslunni. Til þess að geta beðið um að fá það traust verðum við líka að sýna það og tryggja að unnið sé gegn öllum hvötum til spillingar. Einn af þeim hvötum sem þarf að hafa í huga er að hvergi felist nein tækifæri fyrir einstaklinga eða einstaka ráðamenn til að nota sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni.

Þó svo að forsætisráðherra væri bestur allra manna og með geislabaug á höfði þá veit maður aldrei hver tekur við af honum seinna í embætti eða hvaða aðstæður koma upp þannig að þetta snýst ekkert um einhverjar tilteknar persónur. Þetta snýst um það hvernig við ætlum að hafa stjórnsýsluna okkar byggða upp til að almenningur hafi trú og traust á henni. Það er ekki með því að færa öll völdin til að dæma um siðferðileg málefni inn í forsætisráðuneyti.