144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:10]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir brást við orðum mínum undir liðnum Störf þingsins á miðvikudaginn eins og að ég og ríkisstjórnin værum á móti því að fatlað fólk færi um íbúðarhúsnæði af því að ég vil sjá breytingar á byggingarreglugerðinni. Einnig hæddist hún að þingheimi með því að spyrja hvort við vissum hvað algild hönnun þýddi. Byggingarreglugerð snýst um mun meira en algilda hönnun. Reglugerðinni sem breyttist í ráðherratíð þingmannsins er búið að breyta þrisvar og flestir eru sammála um að hana þurfi að laga enn frekar.

Ég hef kynnt mér vel algilda hönnun í byggingarreglugerð og mér finnst hún ósanngjörn. Í stað þess að leitast við að hafa íbúðir algildar skal hafa allar þannig. Algild hönnun er sérstaklega ósanngjörn fyrir unga fólkið sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er jafn ósanngjarnt að byggja allt íbúðarhúsnæði fyrir hjólastóla eins og að byggja ekkert húsnæði fyrir fatlað fólk. Byggingarkostnaður hefur hækkað um allt að 25%, allt að 4–5 milljónir af minni íbúðum, og sá kostnaður lendir hvað harðast á ungu fólki sem leitar að sinni fyrstu íbúð á viðráðanlegu verði. Síðastur manna tala ég fyrir því að fatlaðir hafi ekki góðan aðgang að íbúðarhúsnæði. Bretar hafa farið þá leið að hafa ákveðið hlutfall af byggðum íbúðum aðgengar fyrir fatlaða. Ég held að vert sé að skoða það. Hins vegar á allt opinbert húsnæði undantekningarlaust að vera aðgengt öllum. Barátta talsmanna fatlaðra hefur verið um opinbert húsnæði og skammarlegt að það sé ekki í lagi árið 2015.

Fleira í reglugerðinni en algilda hönnun finnst mér þurfa að endurhugsa, sem dæmi einangrun, loftræstingu og rými utan íbúðar. Húsbyggingar eru á ábyrgð eigenda, ekki framkvæmdaraðila eða sérhæfðs fólks. (Forseti hringir.) Einnig vantar gæðakerfi bygginga.