144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er tilraunaplagg sem við erum að tala um, þetta er í fyrsta skipti sem það er lagt fram. Vísast er það rétt hjá hv. þingmanni og öðrum sem hér hafa nefnt það að margt er óljóst í því og mikil óvissa.

Hv. þingmaður gerði vaxtagjöld og kostnað ríkisins að töluverðu umræðuefni. Þá ætla ég að leyfa henni að heyra mín viðhorf til þess. Ég held að eitt af því sem vantar í þetta þingmál — af því að það er kannski erfitt að taka á því á þeirri stundu sem við erum stödd á — sé einmitt hvernig vaxtakostnaður gæti lækkað út af afnámi gjaldeyrishafta. Ég held að nú sé fram undan aflétting gjaldeyrishafta og við erum búin að missa af besta tímanum, það verður að gera það innan níu mánuða, tel ég. En það er ekki hægt að gera það með öðrum hætti en þeim að skaða verulegan hlunk af krónueign þrotabúanna.

Niðurstaðan í tíð síðustu ríkisstjórnar, og mér sýnist að núverandi sé að fylgja nákvæmlega sama plani, er sú að það þurfi að skafa af sem svarar 350 milljörðum, það þarf að skilja það eftir á Íslandi í eigu ríkisins. Það hefur komið fram af hálfu hæstv. forsætisráðherra að hann er búinn að sætta sig við að það verði ekki notað til neins nema að greiða niður skuldir ríkisins. En þetta eru 350 milljarðar, það er fimmtungurinn af brúttóskuldum ríkisins. Það þýðir að vaxtagjöldin ættu að geta minnkað um sem svarar 18 milljörðum þegar búið er að vinna nauðsynlegan undirbúning.

Þetta nefni ég nú bara til þess að sýna fram á það að ég tel að í þessari þingsályktunartillögu sé að finna bólstur, sem ríkisstjórnin á sem betur fer í seli. En til að halda áfram kem ég að spurningu minni, sem varðar einmitt vaxtakostnað: Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér hve mikið vaxtakostnaður íslenska ríkisins mundi minnka ef draumur minn og sumra annarra manna, um að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu, yrði að veruleika?