144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:20]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þingmönnum hefur fækkað. Um tíma, þegar fundarstjórn forseta var rædd, voru þrír hv. stjórnarþingmenn í salnum en nú er hv. þingmaður aðeins einn eftir þannig að þeim hefur sannarlega fækkað en einnig í stjórnarandstöðunni.

Það er ekki gert ráð fyrir mikilli fjárfestingu en við vitum að það er þörf fyrir fjárfestingu, m.a. til að byggja upp innviði í ferðaþjónustunni. Við vitum um umsóknir upp á 2 milljarða í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það væri hægt að byggja eitthvað á þeirri áætlunargerð en því miður mun fjárfestingarstuðull sem gefinn er í þessari ríkisfjármálaáætlun ekki einu sinni standa undir afskriftum þannig að það mun ganga á innviðina. Það er alvarlegur hlutur (Forseti hringir.) og nokkuð sem við þurfum að fara yfir betur.