144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í dag er 9. júní og það á að leggja fjárlagafrumvarpið fram annan þriðjudag í september. Ef ég þekki vinnuna rétt í fjármálaráðuneytinu er búið að loka öllum stóru reikningunum og búið að taka stóru ákvarðanirnar um stóru línurnar þó að við séum að ræða hér ríkisfjármálaáætlun sem á að byggja undir þær ákvarðanir. Ef það á að breyta einhverju varðandi skattlagningu á ökutæki og eldsneyti og virðisaukaskatt á árinu 2016 er búið að taka þær ákvarðanir og greinilegt að efnahags- og viðskiptanefnd á ekki að vera þar með í ráðum.

Hv. þingmaður talaði um að virðisaukaskattskerfið væri kannski ekki svo gott til að jafna kjör í samfélaginu, heldur væri betra að nýta tekjuskattskerfið til þess. Sú stefna kemur hins vegar greinilega fram í ríkisfjármálaáætluninni að það eigi að einfalda skattkerfið og fækka þrepum, það eigi sem sagt að veikja tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. Sú stefna ríkisstjórnarinnar sem samþykkt hefur verið í þessari áætlun og lögð var hér fram 1. apríl er síðan borin á borð fyrir þá sem voru í kjaradeilu og lagt upp með að það hefði verið samið um einfaldara skattkerfi við verkalýðshreyfinguna. Ég spyr hv. þingmann hvað honum finnist um þessa stöðu og hvort hann telji nóg að gert. Stórir hópar eru enn í verkfalli. Telur hv. þingmaður að það sem ríkisstjórnin gerði sem inngrip til lausnar kjarasamningum sé nóg og dugi fyrir aðrar kjaradeilur eða að grípa þurfi til frekari aðgerða?