144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. „Seinna í dag“ er bara ekki fullnægjandi. Okkur var sagt í gær að þetta yrði seinni partinn í dag og nú er komið að seinni parti dagsins og ég veit ekki hvenær menn ætla að fara að boða til þessa fundar.

Síðan starfsáætlun rann út hefur engin ný áætlun verið sett upp, engin. Menn hafa ekki einu sinni viljað ræða það að setja upp nýja fundatöflu eða neitt slík þannig að menn geti áttað sig á því hvernig við ætlum að ljúka málum hér. Forseti og stjórnarmeirihlutinn telur í lagi að þingið sé látið malla áfram á handónýtu máli, máli sem er svo götótt að það verður vandræðalegt fyrir fjármálaráðherrann þegar það verður samþykkt. Það verður pínleg staða að vera með ríkisfjármálaáætlun sem aldrei verður hægt að standa við, aldrei, af því að hún er svo götótt og af því að það hefur holast svo úr henni síðan hún var lögð fram.

Þetta verður ekki vandræðalegra en þessi staða. Þetta er svo pínlegt fyrir ríkisstjórnina, þetta er svo pínlegt fyrir forseta að það hálfa væri nóg. Hvernig væri að fara að drífa í að boða þennan fund og setja þá upp starfs- og fundaáætlun, þ.e. ef menn ætla að halda hér áfram fram á sumarið?