144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eitt skref áfram og tvö aftur á bak fær maður svolítið á tilfinninguna að sé gangurinn í þingstörfunum þetta sumarið. Ég fylltist mikilli bjartsýni, þó að það væri ekki enn staðfest af munni hæstv. forseta, að heyra að hér ætti að verða fundur með fjármálaráðherra í fyrramálið og það gladdi mig mjög. Þess vegna finnst mér óskaplega hryggilegt að heyra að samkomulag um fund með formönnum flokkanna sem gert var við þingflokksformenn í gær þar sem það var tengt saman að haftafrumvörp færu á dagskrá og að haldinn yrði fundur hafi ekki staðið, að sá fundur hafi ekki enn verið boðaður. Ég hef hingað til í dag ekki talað fyrir því að gert yrði þinghlé heldur talað fyrir því að næsta mál verði einfaldlega tekið á dagskrá. Núna finnst mér hins vegar málið vera komið það mikið upp í loft að ekkert annað sé í stöðunni en að gera í það minnsta stutt hlé til að greiða úr þeirri stöðu sem komin er upp til þess að (Forseti hringir.) við þingmenn getum áttað okkur á því hver næstu skref eru og hvernig við eigum að haga vinnu okkar.