144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég er alls ekki vel að mér í lögmálum hagfræðinnar og ætla því ekki að reyna að segja neitt merkilegt um losun fjármagnshaftanna en ég má til með að segja að mér fannst það afar góð tilfinning að finna þann samhljóm sem var um málið, þrátt fyrir að hv. þm. Karli Garðarssyni hafi fundist annað. Sá samhljómur var þó ekki bara góð tilfinning, hann var einnig mjög mikil tilbreyting frá þeirri miklu sundurþykkju sem hefur einkennt þetta kjörtímabil. Ég treysti því að þessar efnahagsaðgerðir muni skapa okkur færi til að bæta lífskjör almennings, það er afar mikilvægt. Við verðum þó að varast mjög þá bjánalegu sjálfsánægju sem einkenndi fjármálalífið hér fyrir hrun og átti drjúgan þátt í því hvernig fór. En maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og líf þjóðar ræðst ekki eingöngu af verðbólgu og kaupmætti. Fyrir líðan þjóða skiptir traustið höfuðmáli.

Þjóð sem ekki treystir stjórnvöldum eða stofnunum sem eiga að vinna fyrir hana líður alls ekki vel. Evrópuráðið er mjög öflugur varðhundur mannréttinda og lýðræðis og berst ötullega gegn spillingu. Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, var í heimsókn í vikunni. Það var mjög fróðlegt að heyra hversu mikla áherslu þessi reyndi stjórnmálamaður lagði á mikilvægi trausts almennings til stjórnvalda, virðingar fyrir sjónarmiðum minnihlutahópa og óháðra fjölmiðla fyrir lýðræðið og mannréttindin. Við vitum öll að það er allt of mikið vantraust í okkar litla samfélagi og alveg sérstaklega hjá okkur og til okkar hér á Alþingi. Þar er verk að vinna. Við verðum að efla traust almennings.

Hæstv. forseti. Eigum við ekki að byrja strax á því með því að ljúka störfum þessa þings þannig að sómi sé að og nota sumarið til að hugleiða það hvað við getum gert hvert og eitt til þess að bæta samskiptin og árangurinn af starfi okkar í þinginu og þar með virðingu þjóðarinnar fyrir störfum okkar?