144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þessi síðustu orð er alveg ljóst að við erum komin vel á veg við að rétta aftur úr kútnum. Vonandi hjálpa þessi frumvörp mikið til, og ég tel það augljóst, við að rétta enn frekar hag þjóðarbúsins og ríkisins.

Fyrst varðandi mögulegt stöðugleikaframlag og ráðstöfun þess: Um það er fjallað í 34. gr. laga um Seðlabankann að að svo miklu leyti sem hagnaður bankans renni ekki til að efla eigið fé hans skuli hagnaðurinn renna aftur til ríkissjóðs. Ég sé það fyrir mér að að öllu öðru óbreyttu mundi það gerast, stöðugleikaframlagið mundi að öllum líkindum skila sér í ríkissjóð í samræmi við 34. gr. að því leyti sem ekki þyrfti að nýta það í að efla eigið fé bankans. Það kann hins vegar að koma til skoðunar að gera breytingu sem mundi fela í sér að um stöðugleikaframlagið giltu efnislega sömu reglur og um skattinn. Við ættum kannski að velta því fyrir okkur á þessu þingi — þá breytingu mætti svo sem gera síðar, það er ekki hundrað í hættunni þó að það gerist ekki strax — að stöðugleikaframlagið mundi með svipuðum hætti og skatturinn skila sér í ríkissjóð og vera til ráðstöfunar undir sömu reglum og skatturinn yrði samkvæmt skattafrumvarpinu.

Varðandi fjárhæðirnar er ég sammála hv. þingmanni um að það er mikið efni fyrir nefndina að fara yfir. Það er margt fleira en það sem tengist þessum frumvörpum sem getur á endanum orðið til að efla tekjur ríkisins í tengslum við afnám hafta. Ég nefni sem dæmi útboð vegna aflandskrónuvandans. Ég nefni líka sem dæmi að þegar kemur að því að gera upp eignasafn eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands kann að vera að þar (Forseti hringir.) losni um gríðarlega háar fjárhæðir sem munu, samkvæmt sömu tilvitnaðri grein, 34. gr. laga um Seðlabankann, á endanum renna í ríkissjóð að því marki sem ekki þarf að nýta þá fjármuni í að efla eigið fé bankans.