144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún er einmitt svolítið einkennileg þessi þörf forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar til að hafna því á einhvern hátt að samningar hafi skilað árangri. Mér finnst það undarlegt. Það er kannski hluti af þessu umrædda söguskoðunarstríði að annar armurinn í stjórnarsamstarfinu á svolítið ríka löngun til að sýnast harður í þessu og harðari en aðrir og geta jafnvel vænt aðra um að vera á mála hjá hinum aðilanum í þessu öllu saman. Þetta er þekkt orðræða. Við heyrum þetta líka þegar við deilum hér um Evrópusambandið, um aðild að því, þá eru þeir sem eru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu vændir um að vera á mála hjá Evrópusambandinu en ekki að sinna íslenskum hagsmunum. Þetta er leiðindaorðræða. Ég held að við þurfum að vinda ofan af þessu.

Þeir sem voru að tala fyrir samtali, eins og ég og fleiri, voru að sjálfsögðu að tala fyrir íslenskum hagsmunum, voru að benda á að það væri líklega farsæl leið. En svo vekur líka athygli mína þessi upphafning hörkunnar í þessum viðskiptum, við hina svokölluðu hrægamma, eða hvað þeir eru kallaðir, hún er athyglisverð. Ég geri ekkert lítið úr því að það er nauðsynlegt að láta frumvarpið um stöðugleikaskatt fylgja með til þess að sýna hvað er í boði ef samningar nást ekki; það er þeoretísk spurning á þessum tímapunkti hvort það frumvarp þurfi eða ekki í ljósi þess að viðbrögð við samningaleið hafa verið mjög jákvæð.

Maður tekur líka eftir því að á öðrum sviðum samfélagsins finnst mér menn ekkert vera neitt sérstaklega harðir fyrir íslenska hagsmuni, til dæmis þegar kemur að því að reyna að fá gott verð (Forseti hringir.) fyrir orkuna okkar sem við erum þó að virkja með ærnum tilkostnaði og að (Forseti hringir.) reyna að fá arð af sjávarauðlindinni og svoleiðis, þá einhvern veginn lyppast menn meira niður.