144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því. Þetta er gríðarlega flókið og umfangsmikið. Þarna eru ólíkar gerðir fjármuna ef maður má orða það þannig sem eru inni í þessum þrotabúum sem hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf með afar ólíkum hætti. Við höfum vitað umfangið á þessu og það komu góðar greiningar frá Seðlabankanum sem voru birtar í sérritum Seðlabankans til dæmis í október 2012. Ég held að við höfum haft býsna góða mynd af þessu síðan um áramótin 2012/2013. Ég held því að menn hafi ekki þurft alveg þessi tvö og hálft ár til að vinna þessa greiningarvinnu, en ókei, þá hefði líka verið hægt kannski að ræða það við okkur en ekki hvað það væri nákvæmlega sem menn væru að bæta við þær greiningar sem gerðar hefðu verið áður vegna þess að ég hef ekki séð það í sjálfum frumvörpunum. En ég kaupi það alveg að menn vilji stíga varlega til jarðar.

En við skulum samt ekki gleyma því að á meðan í þessi tvö ár sem við höfum verið að bíða hefur forsætisráðherra talað fyrir allt annarri leið en verið er að fara hér. Hann hefur viljað fara aðrar leiðir en boðuð er og niðurstaðan er í þessu frumvarpi. Hann hefur talað fyrir svokallaðri gjaldþrotaleið sem ríkisstjórnin hefur núna komist að niðurstöðu um að fara ekki, heldur fara þá leið samninga sem hafði verið vörðuð á árunum á undan og samstaða hafði verið um hér í þinginu. Ég fagna því auðvitað og í framhaldinu vona ég að ríkisstjórnin sé tilbúin til að taka aftur upp samtalið um leiðina áfram við okkur í stjórnarandstöðunni vegna þess að við viljum vinna þetta af heilindum, þvert á alla flokka vegna þess að eingöngu þannig getum við náð bestu niðurstöðunni.