144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta, eftir því sem ramminn er víðari fyrir þrotabúin til að taka út mun höggvast á annaðhvort samneysluna, fjárfestingu og uppbyggingu atvinnulífsins, eða þá einkaneysluna. Það þýðir breiðari ramma fyrir þrotabúin eða fyrir þá peninga sem eru í slitabúunum sem þau fá út úr nauðasamningunum sem Seðlabankinn endar síðan á að skilgreina sem stöðugleika. Það er mikilvægt að átta sig á þessu, það er Seðlabankinn sem mun enda á því að skilgreina hann. Aðkoma þingsins er takmörkuð hvað þetta varðar. Við þurfum að hafa það mjög í huga og vera mjög meðvituð um það varðandi nauðasamningaleiðina hvað er raunverulegur stöðugleiki þar.

Klukkan virðist ekki virka þannig að ég er að renna út á tíma (Gripið fram í.) en varðandi seinni þáttinn eru 500 milljarðar sem rata inn í Seðlabankann á hlaupareikningi ríkissjóðs sem þýðir „basically“ að það er 500 milljarða kr. kökubox inni í Seðlabankanum sem er hægt að úthluta á fjárlögum eins og þeir sem stjórna því vilja. Við höfum fordæmi fyrir því að of stórir fjármunir séu læstir miklu meira frá löggjafanum, að ekki sé hægt að útdeila þeim bara í gegnum fjárlög sem eru hvort eð er alltaf lögð fram. Við þyrftum að gera það eins og með olíusjóðinn í Noregi, sá sem ætlaði að fara að garfa í honum (Forseti hringir.) þyrfti að vera með sérstök lög til að breyta því. Væri ekki gott og ábyrgt að læsa þessa peninga betur inni?