144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðuleg forseti. Eins og ég fór nokkuð ítarlega yfir í máli mínu þegar ég talaði fyrir frumvarpinu er það því miður þannig að eftir langvarandi verkföll, og langt síðan deilunni var vísað til ríkissáttasemjara, hafa deiluaðilar ekki komið sér saman. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi gert tilraun til að koma málinu í sáttafarveg var því einnig hafnað. Á síðustu dögum var síðan gerð úrslitatilraun. Hún leiddi því miður til þess að samningsaðilar fóru hvor í sína áttina. Ef hv. þingmaður á við það að samningaviðræður við til að mynda ríkið gangi út á að ríkið fallist alltaf á allar ýtrustu kröfur samningsaðilans, hins, eru það auðvitað ekki samningar og þá komast menn ekki að neinni niðurstöðu. Þá verður það ekki samfélag sem við getum byggt upp þar sem allir í samfélaginu leggja sitt af mörkum og takast á við að byggja upp öflugt samfélag (Forseti hringir.) til framtíðar.