144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði; auðvitað viljum við fækka þeim sem eru sjúkir. Við getum alla vega stigið skref til þess að sem flestir hafi tök á því að hafa góða heilsu. Það getum við gert með því að jafna kjörin. Það getum við gert með því að skapa hér aðstæður til að allir hafi til dæmis efni á því að borða góðan og hollan mat. Ein leið til að fækka þeim sem eiga við ýmiss konar veikindi að stríða er hreinlega að stuðla að hollu og góðu líferni.

Það á hins vegar alls ekki að fækka þeim sem hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu. Það er það sem ég er hrædd um að verði afleiðingin ef hér verður farið út í frekari einkarekstur með aukinni gjaldtöku. Það gerir að verkum að einungis þeir efnameiri hafa efni á heilbrigðisþjónustunni.

Hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði hér í umræðunni að það væri kjarabót að lækka skatta á einstaklinga. Hver er kjarabótin og fyrir hvaða einstaklinga ef samneyslan minnkar og ójöfnuður eykst? Hver er þá kjarabótin fyrir þá einstaklinga sem hafa ekki efni á því að kaupa sér aðgang að kerfinu? Þetta eru spurningar sem við verðum að velta upp og svara í tengslum við þessa umræðu vegna þess að þegar og ef það skref verður tekið að setja lög á þetta verkfall þá erum við að veikja velferðarkerfið okkar.