144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:08]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að gera grein fyrir því að ég tók þátt í vinnu allsherjar- og menntamálanefndar og stend því að nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar þrátt fyrir að hafa ekki verið viðstödd þegar álitið var afgreitt og ritaði ég því ekki undir það en styð það samt sem áður. Ég vil koma inn á það að í athugasemdum með frumvarpinu og í áliti meiri hlutans er áréttað að öll þau félög sem þetta frumvarp nær til hafa boðað verkfall eða hafið verkfallsaðgerðir. Þessi félög, þ.e. félögin innan BHM, hafa lagt fram sameiginlega kröfu, skipað sameiginlega viðræðunefnd og samþykkt að fylgja þeim eftir með sameiginlegum aðgerðum. Því vil ég beina þeirri spurningu til hv. framsögumanns nefndarálits minni hlutans, Guðbjarts Hannessonar, hvort hann sé ekki sammála því að fram hafi komið að þessi félög séu í samfloti við gerð þessara kjarasamninga, félögin innan BHM?