144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég og hv. þingmaður erum sammála um að það væri mjög gott ef langtímalausn fengist í þessi mál. Þannig er að ríkið er búið að tryggja sitt framlag, en það vantar heimild fyrir sveitarfélögin til að tryggja mótframlagið sem samið var um að sveitarfélögin mundu leggja fram. Þetta mál er tilraun til þess að koma því á hreint. Þetta er auðvitað ekki til fyrirmyndar eins og fram hefur komið og má kalla þetta reddingu. Við veltum því alveg fyrir okkur í nefndinni hvað mundi gerast ef þetta mál mundi ekki fara í gegn, yrði ekki lagt fram af hálfu nefndarinnar, hvað þá? Það hefur einfaldlega komið skýrt fram að vandi tónlistarskólanna í Reykjavík er slíkur að við mundi blasa grafalvarleg staða og hugsanlega greiðslufall hjá einhverjum skólum. Þessu máli er ætlað að tryggja að svo verði ekki.

Síðan er það önnur saga hvort Reykjavíkurborg og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hefðu nokkurn tímann látið það fara alla þá leið. Þeirri spurningu vil ég ekki fá svar við og þess vegna viljum við í allsherjar- og menntamálanefnd frekar flytja þetta mál til að reyna að leggja okkar af mörkum til þess að aldrei þurfi að reyna á það.