144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil upplýsa að mér er að sjálfsögðu ekkert að vanbúnaði að vera hér í sumar, ég ætla hins vegar í göngur í haust svo forseti viti af því, mun þá sækja um leyfi til þess ef þarf. Ég var nú að reyna að sjá fyrir mér þáverandi hv. þm. Bjarna Benediktsson flytja svona ræðu um Jónsmessuna 2010 eða Jónsmessuna 2012, það hefði verið gaman að heyra hann flytja svona ræðu þá, en einhvern veginn man ég ekki eftir því. Það er út af fyrir sig rétt að nokkur umdeild mál, stór mál, frá ríkisstjórninni eða öllu heldur meiri hluta hennar á þingi, sem hefur nú verið til meiri ófriðar en ráðherrarnir og er þá mikið sagt, einkum formaður atvinnuveganefndar, eru hluti af vandanum sem hér er á ferðinni en aðeins hluti hans. Það er auðvitað ljóst að ríkisstjórnin kom mjög seint með mikið af sínum málum til þings, þurfti afbrigða við. Breytingartillögur í þinginu hafa síðan hleypt þessu í loft upp. Stjórnarflokkarnir hafa sjálfir verið ósamstiga og eru enn. Það nást ekki enn frumvörp út úr nefndum vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um þau. Þá skulum við bara segja (Forseti hringir.) þá sögu úr því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er hér með móralskar predikanir (Forseti hringir.) og messu, þá er rétt að taka allt (Forseti hringir.) málið upp. Er það ekki, herra forseti?