144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir ræðuna. Það er ágætt, eins og hér hefur komið fram, að fara aðeins yfir þetta varðandi tónskóla, einn, tvo eða fleiri. Það kom fram í Fréttablaðinu að 25 tónlistarskólastjórar teldu þetta vera veruleikann sem þeir stæðu frammi fyrir, þ.e. að tveir tónlistarskólar yrðu sameinaðir á höfuðborgarsvæðinu og þar yrði einn skóli. Mér fannst reyndar gæta misræmis í því sem ráðherrann sagði, að það ætti ekki að vera einn skóli en samt skóli sem væri opinn öllum nemendum, að það væri ein af hugmyndunum, og á sama tíma væri hægt að styrkja afburðanemendur sem gætu orðið nemendur við skólann í Reykjavík þó að þeir byggju úti á landi. Mér fannst þetta ekki alveg liggja á hreinu í ræðu ráðherrans. Þetta skýrðist þó aðeins. Ég geng alla vega út frá því að nemendum á landsbyggðinni verði tryggt nám á framhaldsskólastigi, a.m.k. í þessum stærstu tónskólum.

Það sem mig langaði hins vegar að ræða við ráðherrann er að ég sit nú í allsherjar- og menntamálanefnd og henni var ekki sérstaklega ljúft að flytja þetta mál, ég get upplýst ráðherrann um það, en í ljósi stöðunnar var ákveðið að gera það. Ég hafði meðal annars áhyggjur af varasjóði húsnæðismála og hef það enn. Mig langar að spyrja ráðherrann út í það. Hér á að taka út 30 milljónir af varasjóði húsnæðismála oftar en einu sinni. Það kom fram hjá félagsmálaráðuneytinu að í framhaldinu yrði gert ráð fyrir því að þessi sjóður yrði lagður niður. Nú kem ég frá landsvæði þar sem enn eru óseldar íbúðir og eins og hæstv. ráðherra veit er mikill munur á söluverði og áhvílandi lánum af félagslegum íbúðum þar og sveitarfélögin eru mörg hver ekki í stakk búin til að bæta því við hjá sér í rekstrarreikninginn og höfðu ekki gert ráð fyrir því. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir að sambandið komi vissulega hér fram sem þessi aðili þá held ég að það sé ekki að tala fyrir hönd (Forseti hringir.) allra litlu sveitarfélaganna. Ég spyr hvort ráðherrann sé sama (Forseti hringir.) sinnis varðandi það að sjóðurinn verði lagður niður.