144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Fyrst aðeins um tímasetningu framlagningarinnar. Þessu máli var dreift eftir að starfsáætlunin rann úr gildi. Ég fór yfir það í ræðu minni að 9. júní var þessu máli dreift vegna þess að ráðherrann hafði sofið á verðinum. Það er ástæðan fyrir því að við gerum þetta svona. Okkur er ljúft og skylt að gera það, en vandinn er bara sá að þetta á við svo mörg önnur mál. Menn eru að koma seint inn með stór mál eins og stöðugleikaskattinn, stöðugleikaskilyrðin og húsnæðismálin. Samgönguáætlun kom inn í þingið 30. maí. Það eru svona stór grundvallarmál sem koma allt of seint hingað inn. Það er þess vegna sem við erum með allt í óefni í skipulagi þingsins, en líka af því menn hafa ekki hugmynd um hvað þeir vilja fá afgreitt. Þá er nú gott þegar nefndir grípa í taumana eins og verið er að gera nú. Ég fagna því að náðst hafi samstaða um það í nefndinni að tryggja að við færum ekki í sumarfrí með tónlistarskólana í lausu lofti. Ég verð enn og aftur að gagnrýna það að menn hafi ekki nýtt þessi tvö ár betur.

Varðandi varasjóð húsnæðismála þá fór ég líka yfir það í ræðu minni. Ég hef hvergi séð það eða fengið það staðfest að hlutverki hans sé lokið eða að hann megi sjá af þessum 30 milljónum. Miðað við hvert hlutverk hans er þá sé ég ekki betur en að á svæðum um landið þar sem við erum í ákveðinni vörn, þar sem mikið af húsnæði stendur autt og við horfum upp á töluverða brottflutninga, þurfi menn þessa fjármuni. Ég hef hvergi séð og enginn hefur staðið hér og sagt okkur það að þessi varasjóður húsnæðismála sé óþarfur. Ég hefði viljað fá skýringar á þessu.

Ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að (Forseti hringir.) koma að þessu með öðrum hætti, en svona gerum við þetta núna. Við munum krefjast skýringar á þessu. (Forseti hringir.) Varðandi stóru málin þá er algjörlega ljóst að við munum fylgjast með því hvað menntamálaráðherra gerir á öllum (Forseti hringir.) skólastigum á næstunni.