144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni þessa máls, hv. þm. Haraldi Benediktssyni, fyrir tölu hans hér. Eins og fram hefur komið er þetta mál mjög einkennilegt, en það varð til í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þáverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra, núverandi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, vistaði þetta verkefni undir sér í ráðuneyti sínu og er það einsdæmi, virðulegi forseti, þegar um svo umsvifamiklar fjárheimildir er að ræða og auk þess vegna þess hvers eðlis verkefnið er.

Fjárlaganefnd hefur fengið til sín fulltrúa Vegagerðarinnar og fulltrúa frá atvinnuvegaráðuneytinu og bendir hver á annan, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson fór yfir, og raunverulega má segja að þetta verkefni sé munaðarlaust. Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn hvort ekki sé rétt að fara þá leið sem svona verkefni fara hér á landi, að framkvæmdin á verkefninu verði færð undir innanríkisráðuneytið og undir fjármálaráðuneytið hvað varðar lánsfjárhliðina.

Varðandi þær upphæðir sem um ræðir var gert ráð fyrir upphaflegri fjárhæð upp á 1.800 milljónir í verkefnið þegar var verið að koma því inn í þingið, inn fyrir dyrastafinn, en nú liggur fyrir að farið verður 70% fram úr því mati þegar þessi lög voru samþykkt og mun líklega enda í 3,2 milljörðum. Ég spyr því þingmanninn: Er það ásættanlegt þegar farið er af stað með svona verkefni að þau séu svo vanreifuð og vanáætluð að raunverulega sé verið að gefa opinn tékka inn í framtíðina?