144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er langt um liðið síðan ég bað um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra um áform Framsóknarflokksins um að afnema verðtryggingu. Þetta var eitt stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins sem leiddi til mikilla væntinga en við höfum ekkert séð í þeim efnum. Við erum farin að upplifa stýrivaxtahækkanir vegna undirliggjandi verðbólgu og síðan eru ófyrirsjáanlegar afleiðingarnar af afnámi fjármagnshafta þannig að það er mjög brýnt að við tökum þessa umræðu svo fólk í landinu viti hvað fram undan er á lánamarkaði.

Síðan tel ég mjög mikilvægt að við ræðum stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir að nú hafi náðst samningar vita allir sem í einhverjum tengslum eru við heilbrigðiskerfið að það er gríðarleg óánægja meðal hjúkrunarfræðinga. BHM er ekki búið að ná neinum samningum og það er alls óvíst (Forseti hringir.) að allar þær uppsagnir sem nú hafa komið fram verði dregnar til baka. Þetta verðum við að ræða hér því að þetta er stóralvarlegt ástand.