144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um gömul mál og þá er margt sem erfitt er að breyta, þ.e. þeim hlutum sem orðnir eru. Það sem hægt er að gera og af því að fjárlaganefnd er svo vel sett af góðum minni hluta sem veitir væntanlega meiri hlutanum aðhald. Við höfum setið í þessum vinnuhópi ásamt formanni nefndarinnar og stundum varaformanni og við höfum reynt að fara svolítið djúpt ofan í þessa hluti. Það má gera betur og við höfum rætt við ráðuneytin, þannig að ég held og vil ekki gera lítið úr því að nefndin er einhuga í því að reyna að spyrna við fótum og fá ráðherra og ráðuneyti til að standa sig betur í áætlanagerð og öðru slíku en reyndin hefur verið í allt of langan tíma.

Það hófst með skýrslu Ríkisendurskoðunar, vinnuhópur var settur af stað 2009 og 2010 vegna ríkisreiknings þeirra ára. Nú erum við búin að vera að fjalla um endurskoðun ársins 2011 og 2012 þannig að við höfum verið að fara ofan í athugasemdir sem hafa komið fram árum saman. Ég hef von um að það verði ráðuneyti og ráðherra til aðhalds en auðvitað þurfa heimildir að vera sýnilegri. Ég tek undir þetta og segi það aftur að mér finnst að það eigi að gera þær sýnilegri svo að allir séu meðvitaðir um hvað sé á ferðinni hverju sinni og við vitum um hvað við erum að fjalla.