144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[10:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir niðurstaða í kjarasamningum við hjúkrunarfræðinga, þó að atkvæðagreiðslan sé eftir, þannig að hjúkrunarfræðingum má ljóst vera hvaða kjörum megi búast við á grundvelli þeirra samninga verði þeir samþykktir og niðurstaðan úr gerðardómi yrði aldrei minni. Ef það hefur ekki orðið til þess að menn dragi uppsagnir sínar til baka, er þá ekki óhjákvæmilegt að álykta sem svo, hæstv. heilbrigðisráðherra, að sá samningur sem ríkið gerði nægi ekki til þess að gera íslenska heilbrigðiskerfið að eftirsóttum vinnustað fyrir þetta fagfólk okkar í nægilegum mæli til að halda uppi fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu um landið og jafnvel þó að kjarasamningurinn yrði samþykktur mundum við missa of mikið af hæfu starfsfólki úr hjúkrunarstétt vegna þess að kjörin verða ekki nógu góð þó að samningurinn verði að veruleika?

Þá hlýt ég að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort það séu einhver fyrirheit (Forseti hringir.) um það að gera betur eða hvernig eigi að skilja bókanir í samningunum sem gefa einhvers konar ádrátt um slíka hluti.