144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir góða ræðu. Þetta mál hefur verið talsvert lengi hér í umræðu. Það er mjög miður að ekki skuli hafa tekist að fá hingað framsögumann fyrir meirihlutaálitinu. Ég tel að það sé einsdæmi hér í sögunni að það liggi fyrir nefndarálit sem enginn vill mæla fyrir.

Skaðinn felst í því að í nefndarálitinu kemur fram að meiri hlutinn virðist viðurkenna það að við sem vildum fá þetta mál inn til nefndar til þess að ræða það frekar höfðum rétt fyrir okkur. Það er meira að segja viðurkennt í meirihlutaálitinu að margvíslegar ábendingar sem komu fram hjá minni hlutanum voru gagnlegar. Það er bókstaflega sagt. Það er sömuleiðis sagt að það þurfi hugsanlega að laga tvo þætti ríkisfjármálaáætlunar, annars vegar niðurstöðu kjarasamninga og hins vegar er talað um að það ríki óvissa um það með hvaða hætti verði ráðist í aðgerðir til að undirbúa losun hafta. Nú liggur fyrir, að því er varðar hið síðarnefnda, að það er komin fram áætlun. Hún er tvíþætt. Það er annars vegar stöðugleikaskattur ellegar geta menn farið leið nauðasamninga með stöðugleikaframlögum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt hversu mikil stöðugleikaframlögin verða. Við vitum að slitabúin ætla öll að fara þá leið, það hefur komið fram hjá þeim. Þá liggur ljóst fyrir að þar er upphæðin komin fram sem hægt verður að nota til þess að greiða niður skuldir ríkisins. Það liggur líka ljóst fyrir að þær upphæðir á að greiða á næsta ári.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Miðað við þetta, er þá ekki alveg ljóst að ríkisfjármálaáætlunin er í stórum efnum jafn marklaus hvað þetta varðar eftir sem áður? Spurningin er hvort þurfi ekki að taka þetta enn einu sinni inn í fjárlaganefnd til þess að skoða málið út frá því sem núna liggur fyrir.