144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál er ekki hægt með góðu móti að útskýra öðruvísi en svo að hæstv. forsætisráðherra hafi, eins og margir, áhuga á að vernda sögulegar byggðir og leggi því hér fram frumvarp um að taka allt sem lýtur að verndun sögulegra byggða innan skipulagslaganna, þar sem slík málefni eiga auðvitað að vera, og færa undir valdsvið ráðuneytis síns. Þetta er náttúrlega með ótrúlegum ólíkindum. Maður veltir fyrir sér ef ráðherrar síðari tíma geri slíkt hið sama hvers konar lagaumhverfi við munum fá, sniðið eftir áhugasviði þeirra.

Þetta er ömurlegt frumvarp. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þingheimur greiðir atkvæði þvert gegn vilja sveitarstjórnarfólks og fjölmargra umsagnaraðila. Þetta á auðvitað heima í umgjörð skipulagslaganna. Þó svo að líkur séu á að málið muni eitthvað batna, menn muni taka einhverjum sönsum á milli 2. og 3. umr., (Forseti hringir.) þá leggjumst við í Bjartri framtíð að sjálfsögðu gegn (Forseti hringir.) því.