144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarin tvö ár hefur sá sem hér stendur gagnrýnt Seðlabanka Íslands harðlega vegna stýrivaxtaákvarðana á hverjum tíma og gerði það enn fyrir um hálfum mánuði síðan. Í þetta sinn vill svo til að nokkrir hagsmunaaðilar í fjármálakerfinu hafa tekið upp þykkjuna fyrir Seðlabankann og ásakað þann sem hér stendur um loddaraskap fyrir háttsemi sína í gagnrýni á Seðlabanka Íslands og bent á það að Seðlabankinn hafi ekki nema eitt úrræði til að halda aftur af verðbólgu og standa að peningastefnu og það sé stýrivaxtaákvörðun. Þetta er ekki alls kostar rétt. Að mati þess sem hér stendur hefur Seðlabanki Íslands ekki nýtt í þó nokkurn tíma, í þeim mæli sem hann hefur heimildir og getu til, bindiskyldu gagnvart viðskiptabönkunum á Íslandi, þá á ég einkum við ákvæði 11. og 12. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Þar er það alveg klárt að Seðlabankinn getur beitt aukinni bindiskyldu á ákveðin útlánasöfn bankanna o.s.frv. Þetta er Seðlabankanum í lófa lagið að gera.

Ég tel fulla ástæðu til að brýna peningastefnunefnd bankans og stjórn hans að gaumgæfa þetta vegna þess að ég er þess algjörlega fullviss að við þessar aðstæður, nú þegar við sjáum fram á losun hafta, mun síðasta hækkun Seðlabankans og boðaðar hækkanir auka hættu á því að hér streymi inn fjármagn, eins og gerðist í aðdraganda hruns með þekktum afleiðingum. Þess vegna skora ég enn á ný á Seðlabanka Íslands og stjórnendur hans að gyrða sig í brók og beita þeim úrræðum sem þeim eru fær.