144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:27]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ágætu Íslendingar. Nú þegar kjörtímabilið er hálfnað er gott að staldra við, taka stöðuna, líta um öxl, skoða það sem áunnist hefur um leið og litið er fram á veginn. Ísland er alveg hreint ágætt en ekki fullkomið frekar en nokkurt annað land á jörðinni. Af dægurmálaumræðunni má þó jafnvel láta hvarfla að sér að hér ríki eymdin ein því að það virðist auðveldara að fjalla um það sem er neikvætt en trúa á það jákvæða þótt raunin sé að hér megi benda á ýmsar jákvæðar staðreyndir sem við sem þjóð getum verið stolt af og glaðst yfir. Það er hlutverk og skylda okkar allra að vinna að því að bæta samfélagið og skila því í betra ástandi til komandi kynslóða. Þetta held ég að sé markmið og hugsjón allra þeirra sem setjast inn í þennan sal. Eðlilega greinir okkur þó á um leiðir.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru af kjörtímabilinu hefur verið unnið ötullega að þessu markmiði. Eitt af því sem hvað mest gildi hefur þegar litið er til undanfarinna ára er að tekist hefur að koma á stöðugleika í efnahagsmálum eftir erfið áföll. Það er mesta kjarabót allra, og þá sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu, að verðbólga haldist stöðug og í lágmarki og að kaupmáttur rísi jafnt og þétt. Á undanförnum tveimur árum hafa þessi markmið náðst. Það er góður árangur sem allt samfélagið nýtur góðs af. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið, atvinnuleysi hefur minnkað og hagur atvinnulífsins vænkast svo einhver dæmi séu nefnd.

Í samhengi við skynsamlega stefnu í ríkisfjármálum hefur hinn forni fjandi launafólks, verðbólgan, hopað og þarf nú að leita um tíu ár aftur í tímann til að finna sambærilegt stöðugleikatímabil. Þá hafa ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðað að því að auka ráðstöfunartekjur landsmanna. Sem bæði eykur möguleika á sparnaði og bætir aðgang að vörum og þjónustu.

Það er sérstakt fagnaðarefni að leiðréttingin, ein stærsta efnahagsaðgerð síðari ára, er nú komin til framkvæmda. Nýleg skýrsla fjármálaráðuneytisins um framkvæmd hennar sýnir að þar hefur allt staðið sem stafur á bók frá því að aðgerðin var kynnt og er líklega leitun að aðgerð í íslenskri stjórnmálasögu þar sem staðið hefur verið við allar fjárhæðir og tímafresti.

Þá er ánægjulegt að sjá í skýrslu fjármálaráðherra staðfestingu á því sem fram kom í kynningu aðgerðanna, að þeir sem lægstar hafa tekjurnar fá hlutfallslega mest úr aðgerðunum og munar þar miklu gagnvart hinum tekjuhærri. Með leiðréttingunni hafa heildarskuldir heimilanna lækkað um 40 prósentustig á síðustu fjórum árum miðað við landsframleiðslu ársins 2014. Það hlýtur að muna um það.

Og nú hefur áætlun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um afnám fjármagnshafta loks litið dagsins ljós, áætlun sem hefur verið fagnað af flestum hér heima og nýtur trúverðugleika á erlendri grundu sem staðfest er með til dæmis hækkun Moody's á lánshæfi Íslands. Farsæld framkvæmd þeirrar áætlunar gefur fyrirheit um betri aðstæður hér á landi fyrir almenning, fyrirtæki og fjárfesta og mun, ef vel tekst til, gefa færi á enn meiri uppbyggingu en nú þegar er orðin.

Góðir landsmenn. Veturinn hefur verið um margt strembinn og augljóst að mikil uppsöfnuð þreyta og óþol er í fólki eftir langvarandi álag. Væntingar manna um batnandi hag eru miklar. Hlutirnir ganga kannski ekki eins hratt og margir vona en við höfum sem betur fer séð, bæði á hagtölum hér innan lands og í alþjóðlegum samanburði, að hagur okkar vænkast hægt og sígandi. Miklu hefur verið áorkað þó að mögulega hafi væntingar verið um meira.

Við viljum byggja landið upp til framtíðar. Til þess þarf að hafa skynsemi í öndvegi við allar ákvarðanir. Undangengin reynsla okkar af hinu svokallaða íslenska efnahagsundri minnir á að í þeim málum er bólumyndun og flas ekki til fagnaðar. Sígandi lukka er best. Mestu skiptir að fólk fái viðspyrnu og kraft til að ná sér á strik. Slíkt verður aðeins til með stöðugleika í efnahagslífinu þannig að fólk geti treyst því að dagurinn á morgun verði svipaður og dagurinn í dag, að ekki sé von á kollsteypu að óvörum. Markmið stjórnvalda er að veita þessa viðspyrnu svo landsmenn fái frið til að byggja upp líf sitt til framtíðar. Það er auðvitað margt óunnið enda þótt mikill árangur hafi náðst.

Góðir landsmenn. Við sem þjóð höfum verið svo lánsöm að hafa náð tökum á sjávarútvegi landsins. Það er ólíkt mörgum öðrum þjóðum í kringum okkur. Fiskstofnar eru sjálfbærir og íslenskur fiskur er eftirsóttur á erlendum markaði. Árangur íslensks sjávarútvegs byggist á mikilli eljusemi fólks sem starfar í greininni og öflugri virðiskeðju. Það er einfaldlega ekki nóg að eiga skip til að búa til verðmæti. Það þarf að kunna að veiða fiskinn, það þarf að kunna að verka fiskinn og það þar að kunna að selja fiskinn. Virðiskeðjan nær því allt frá veiðum til öflugrar markaðssetningar og sölu á erlenda markaði. Það getur verið ágætt að horfa á hlutina í örlítið stærra samhengi en við eigum til með að gera dagsdaglega. Þar getum við séð að íslenskur sjávarútvegur er eini sjávarútvegurinn innan OECD sem er ekki ríkisstyrktur. Sjávarútvegurinn hérlendis greiðir nefnilega háar upphæðir til ríkisins en er ekki á framfæri hins opinbera eins og víða finnst dæmi um.

Það er ekki, og verður aldrei, einkamál sjávarútvegsins sjálfs að honum vegni vel til lengri eða skemmri tíma. Slíkt verkefni er sameiginlegt markmið atvinnugreinarinnar sjálfrar og stjórnvalda hverju sinni. Nauðsynlegt er að skapa umhverfi sem hvetur til fjárfestinga, nýsköpunar og hagkvæmni í greininni sjálfri. Vissulega getum við alltaf gert betur og það reynum við svo sannarlega að gera áfram.

Það er hins vegar alveg ljóst að við munum ekki ná neinum árangri með að kollvarpa núverandi kerfi í heild sinni, heldur verður það gert í litlum og markvissum skrefum líkt og stefnt var að í því makrílfrumvarpi sem lá fyrir þinginu í vor. Um frumvarpið náðist ekki sátt hér innan húss þrátt fyrir að þar hafi verið mætt öllum þeim kröfum sem fram komu, bæði innan þings og utan. Það er umhugsunarvert að flokkar geti ekki stutt frumvörp þar sem komið er til móts við sjónarmið þeirra á sama tíma og flokksmenn þeirra kvarta iðulega undan samráðsleysi. Sem dæmi má nefna afstöðu eins flokks sem fór eftir því hvort til svara var formaður eða varaformaður. Ástæðan fyrir hringlandahættinum virðist fyrst og fremst sú að nota óvissu um skipulag veiðanna sem barefli í pólitískum slag. Slík afstaða er ábyrgðarlaus og ekki til þess fallið að auka virðingu Alþingis.

Ágætu Íslendingar. Það er grundvallaratriði að við Íslendingar viljum skapa aðstæður fyrir blómlega byggð um allt land. Til þess þarf að huga að mörgu, bæði umgjörð og innviðum. Samgöngur og aðgangur að þjónustu og netsambandi eru þar okkar mikilvægustu verkefni. Vinna er nú hafin við undirbúning ljósleiðaratengingar allra heimila á landinu og tekin hafa verið mikilvæg skref í átt að jöfnun húshitunarkostnaðar um allt land. Á næstu þremur árum verður 112 milljörðum varið í samgönguverkefni og strax í ár verður 1.800 milljónum varið til brýnna verkefna í vegagerð.

Þótt samgöngur séu vissulega mikilvægur þáttur í samfélaginu krefst nútíminn þess að fólk geti litið á það sem raunhæfan möguleika að starfa hvar sem er á landinu og verið í góðu fjarskiptasambandi. Það vitum við öll sem búum á landsbyggðinni að jafnrétti verður að nást í þessum málum. Það er mikilvægt fjölskyldunnar vegna, heimilanna, atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Innviðir verða að vera traustir svo byggja megi áfram blómlega byggð um land allt, til sjávar og sveita.

Örugg netsamband skýtur stoðum undir það að skólar geti haft meiri samvinnu, fundir geti verið haldnir án kostnaðarsamra ferðalaga, bændur og aðrir atvinnurekendur geti sinnt vinnu sinni og skyldum. Nefna má ótal margt sem hangir á spýtunni, en hér vil ég líka nefna fjarheilbrigðisþjónustu, mál sem var til umfjöllunar á Alþingi í dag.

Við þurfum sterka innviði í samfélagið. Við lifum í landi sem er ríkt af auðlindum og okkur ber að nýta þær af hófsemd og sjálfbærni. Við erum með umhverfisvæna orkuframleiðslu, nýsköpunarfyrirtæki blómstra nú sem aldrei fyrr, sjávarútvegur er öflugur og ferðaþjónusta vex. Þetta aflar okkur mikilla tekna sem geta nýst til að skapa viðvarandi velferð í landi þar sem við erum öll sammála um að enginn eigi að þurfa að líða skort. Áframhaldandi ábyrgð í efnahagsmálum og atvinnuuppbyggingu um land allt er lykillinn í því verkefni.

Góðir Íslendingar. Við höfum sýnt að við getum tekist á við stór verkefni. Enn er verk að vinna, tækifærin eru til staðar og okkur ber að nýta þau af ábyrgð. Íslenskt samfélag er samvinnuverkefni. Vinnum saman.