144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Guði sé lof, hv. þm. Sigríður Andersen er þeirrar skoðunar að undanþágurnar eigi að koma til skoðunar hjá þinginu. Það skiptir mig máli að fyrir liggi að manneskja úr hennar væng stjórnmálanna segi það. Hvað er mitt hlutverk hér? Það er að berja á þeim sem koma hingað upp og segja: Þetta er allt í lagi. Það er hlutverk þingmanna að vera krítískir á þetta. Ég er ekki sannfærður um að þessi leið með stöðugleikaskilyrðin sé nándar nærri eins trygg og leiðin með stöðugleikaskattinn. Ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að hrollur fer um mig þegar ég sé fréttamann eins og Þorbjörn Þórðarson á Stöð 2 tala um ofsagleði í hópi kröfuhafa. Það fer um mig hrollur þegar sá ágæti fréttamaður segir að ofsagleðin veki sér ugg. Og hann spyr upphátt í pistli um daginn: Getur verið að ríkisstjórnin hafi samið af sér? Það fer um mig hrollur þegar ég les fréttir á Bloomberg þar sem haft er eftir nafngreindum kröfuhöfum að niðurstaðan hafi vakið undrun þeirra og sé mun betri en þeir áttu von á. Það fer um mig hrollur þegar ég les það eftir kröfuhöfum að þeir séu ánægðir með það að sleppa með að borga 2,75 milljarða dala í staðinn fyrir 5,1 milljarð dala. Ég velti fyrir mér hvort þetta mál sé skoðað til þeirrar þrautar sem okkur ber.

Ég er til dæmis ekki viss um það að nægilega vel sé um búið hvað varðar langtímafjármögnun íslensku bankanna í gegnum innlenda eign erlendra kröfuhafa á gjaldeyri. Hvað gerist ef staðan verður erfið eftir sjö ár. Ja, þar eru 150 milljarðar í gjaldeyri, kannski til 200 „på spil“ til dæmis. Ég er ekki ánægður með að það sé bara sett fyrir nefndina eins og góður valkostur að það sé allt í lagi, þannig tók ég það, að erlendir fjárfestar kaupi íslenskan banka, nema það sé skoðað til þrautar. (Forseti hringir.) Við verðum að vita hvaða ávinning það hefur í för með sér. Ég veit ókostina. Hugsanlega eru ávinningar í formi sterkari gjaldeyrisstöðu, en þá verðum við að skilja það.