144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þær ræður sem hér hafa verið haldnar. Þetta hefur verið góð og yfirveguð umræða. Ég vil líka fagna þeirri vinnu sem hefur greinilega verið góð í efnahags- og viðskiptanefnd, og fagna þeirri augljósu samstöðu sem virðist ríkja um þetta mál. Það er gríðarlega mikilvægt að um þetta mál ríki sem breiðust samstaða vegna þess að þetta er eitt af stærstu málum, ekki bara þessa þings heldur þessa kjörtímabils. Það er mjög mikilvægt hvernig til tekst við losun gjaldeyrishaftanna og hvernig til tekst við að leggja lokahönd á uppgjörið sem tengist hinu fallna fjármálakerfi og að um það geti ríkt sem breiðust samstaða í þingsal. Það styrkir klárlega stöðu Íslands og ríkissjóðs í öllu sem fram undan er.

Ég vil líka segja að ég held að vel hafi verið haldið á þessu máli í tíð þessarar ríkisstjórnar og það vel unnið í efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég get þó ekki sleppt því að minnast aðeins á nokkur atriði sem haldið var oft fram hér á síðasta kjörtímabili en fer minna fyrir nú. Því var gjarnan haldið fram að ekki væri hægt að afnema gjaldeyrishöft nema við gengjum í Evrópusambandið, að ekki væri hægt að stíga skref um afnám gjaldeyrishafta nema við tækjum upp evru. Ég held að það hafi sýnt sig nú og muni sýna sig að það er einmitt hægt. Og í krafti sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar og þess að hafa hér sjálfstæðan gjaldmiðil erum við nú að stíga þau skref.

Við þurfum ekki annað en horfa til þeirra frétta sem í dag berast okkur af vanda Grikkja þar sem þeir eru settir undir Evrópska seðlabankann, og sjá þær fréttir sem þaðan berast. Við þurfum ekki annað en horfa á Írland í þessu samhengi og við sjáum hvernig Ísland er að rísa. Við sjáum hvernig landið er að þróast og við sjáum það líka í umræðunum í dag að menn hafa fyrst og fremst áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur á ríkissjóð og freistnivandann, sem hv. þm. Árni Páll Árnason kom inn á og fleiri hér, að það fjármagn sem þarna myndast í bókum ríkissjóðs verði nýtt með einhverjum hætti. Það er vegna þess að landið sjálft, Ísland, er að rísa og við erum alltaf að sjá það betur og betur.

Ég vil líka, vegna þeirrar umræðu sem verið hefur hérna, taka undir það að markmiðið með þessum frumvörpum er fyrst og fremst að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Þar hefur verið haldið vel á málinu. Þegar menn tala um möguleikann á því að þrotabúin velji þá leið að fara nauðasamninga frekar en skattlagningarleiðina verða menn að hafa í huga, og ég held að það hafi verið ítrekað af öllum sem hér hafa talað, bæði frá meiri hluta og minni hluta, að þá þarf slíkt að fara í gegnum Seðlabanka Íslands, síðan til ráðherra og svo hefur nefndin nú bætt við og styrkt stöðu þingsins og bætt við efnahags- og viðskiptanefnd. Í nefndaráliti segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Nefndin áréttar þann skilning sinn að við mat á undanþágubeiðnum slitastjórna verði í samræmi við 1. gr. frumvarpsins litið til markmiða um efnahagslegan stöðugleika og almannahag, en af þeim leiðir að hvorki verði gengið á gjaldeyrisforðann né lífskjör almennings skert. Nefndin áréttar einnig að í samræmi við gjaldeyrislög skulu undanþágur bankans aðeins veittar að höfðu samráði við ráðherra og að undangenginni kynningu ráðherra á efnahagslegum áhrifum þeirra fyrir efnahags- og viðskiptanefnd.“

Þarna er verið að tryggja aðkomu þingsins að þessu máli. Þarna er líka verið að tryggja að hagsmuna almennings verði gætt og hefur það komið fram hjá öllum ræðumönnum í dag. Mikilvægt er að ítreka það, ekki hvað síst fyrir málið sjálft.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á það sem einnig hefur verið sagt og snýr að því hvernig menn ætla að nota þetta fjármagn. Þetta er fyrst og fremst stöðugleikaskattur, eins og ég sagði og það hefur verið rakið hér í máli manna. Þetta er ekki hugsað sem tekjuöflunarleið. Þetta er fyrst og fremst stöðugleikaskattur sem tryggja á stöðugleika í íslensku samfélagi. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að það fjármagn sem út úr þessu fæst verði ekki notað til þess að raska þeim stöðugleika. Ég tek undir með þeim sem hafa tjáð sig um það og ég tel að með þeim breytingartillögum sem nefndin hefur lagt til hvað þann þátt snertir, sé verið að styrkja það enn frekar. Því ber að sjálfsögðu að fagna.

Það er ekkert mikilvægara í íslensku samfélagi en að tryggja hér stöðugleika og jafnan vöxt sem innstæða er fyrir í hagkerfinu, sem byggist upp á raunverulegri aukningu í verðmætasköpun og öðru slíku. Þess vegna tel ég að nefndin hafi gert mjög vel hvað þessar breytingar varðar.

Ég vil svo segja það í lokin og ítreka að ég er þess fullviss að værum við ekki sjálfstæð þjóð í eigin landi með okkar efnahagsstefnu sem við getum stýrt sjálf, með okkar sjálfstæða seðlabanka og okkar sjálfstæða gjaldmiðil, værum við ekki í þeim sporum sem við erum núna, að undirbúa það að losa hér gjaldeyrishöft, að undirbúa að Ísland verði það land sem verður hvað fljótast að rísa upp úr efnahagshruni.

Ég ítreka það enn að við þurfum ekki annað en að horfa til Grikklands og stöðunnar sem þar er, að horfa til kröfunnar sem þar er um þjóðnýtingu á skuldum o.s.frv. Það er okkur miklu auðveldara og það er í krafti sjálfstæðis okkar sem við erum að rísa upp í dag. Því ber að sjálfsögðu að fagna um leið og ég fagna þeirri þverpólitísku samstöðu sem virðist ríkja um þetta mál vegna þess að hún er mikilvæg fyrir málið sjálft og fyrir Ísland og er hún einnig mikilvæg fyrir það sem fram undan er, en þá verðum við auðvitað að setja dægurpólitíkina til hliðar.