144. löggjafarþing — 147. fundur,  3. júlí 2015.

þingfrestun.

[13:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd alþingismanna flytja forseta þakkir fyrir samstarfið á líðandi þingi. Mikið hefur gengið á, oft í miklum ágreiningi um fundarstjórn forseta. Sá ágreiningur hefur kostað mikinn tíma og mikla vinnu, ekki síst forseta sjálfs.

Nú höfum við starfað í um það bil mánuð án starfsáætlunar og veit ég að fáum er jafn illa við þá stöðu og virðulegum forseta. Án þess að benda á nokkurn mann vitum við að forseti hefur þurft að sýna fádæma umburðarlyndi gangvart ýmsu sem hér hefur gengið á. Kannski er það ekki þrátt fyrir aðstæður heldur vegna aðstæðna sem þakka ber forseta sérstaklega fyrir sín oft og tíðum erfiðu störf á þessu þingi.

Ég vil færa forseta og fjölskyldu hans bestu kveðjur fyrir hönd okkar alþingismanna og starfsfólki Alþingis fyrir sitt góða starf.

Ég bið þingmenn að taka undir góða kveðju til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]