145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Enn á ný hefur ríkisstjórnin lagt fram fjárlagafrumvarp og enn á ný hefur forsætisráðherra flutt stefnuræðu sína. Þessir árvissu viðburðir hjá hægri stjórninni vekja jafnan upp blendnar tilfinningar og svo er einnig nú. Fjárlagafrumvarpið ber það vissulega með sér að það árar að mörgu leyti ágætlega á Íslandi um þessar mundir og það ber þess sömuleiðis vott að núverandi ríkisstjórn tók við traustu búi vorið 2013. Vinstri stjórnin hafði þá haft betur í glímunni við verstu afleiðingar hrunsins og verkefni núverandi ríkisstjórnar eru eiginlega smámunir einir miðað við þann meginvanda sem þá var glímt við.

Stefnuræða hæstv. forsætisráðherra er mikil lofrolla. Sumt af því lofi á vissulega rétt á sér. Ísland er að sönnu gjöfult land á margan hátt og býr vel að auðlindum. En glansinn fer að dofna þegar athyglin beinist að skiptingu arðsins af nýtingu auðlinda sem þó teljast sameign þjóðarinnar. Þeim verðmætum sem fiskveiðar og fiskvinnsla skila er sannarlega misskipt og ríkisstjórnin hefur, illu heilli, algerlega heykst á því verkefni að tryggja samfélaginu réttmæta hlutdeild í þeim verðmætum sem sköpuð eru úr auðlind sjávarins. Einnig hefur hún látið undir höfuð leggjast að gera ráðstafanir til að draga úr þeim óstöðugleika sem kvótakerfið veldur í sjávarbyggðum landsins þar sem eigendur veiðiheimilda geta valsað um þær að vild og skilið verkafólk og sveitarfélög eftir án atvinnu og atvinnutækifæra því að rétturinn til nýtingar auðlindarinnar var hafður með þegar reksturinn var fluttur á brott.

Í fjárlagafrumvarpinu birtist gamalkunnugt stef um neysludrifinn hagvöxt á kostnað alvörufjárfestingar í innviðum og samfélagsverkefnum. Skattar lækka að venju hjá þeim sem betra hafa það í samfélaginu. Boðaðar eru lækkanir á tollum sem koma þeim helst til góða sem mestan kaupmátt hafa og hæst neyslustig. Með því hvetur hægri stjórnin til meiri neyslu á innfluttum varningi þrátt fyrir að viðskiptajöfnuður sé óhagstæður um þessar mundir, sem er eitt merkjanna um að nú stefni í óefni með efnahagsstjórn landsins. Slík merki eru fleiri, svo sem háir vextir og verðbólga langt umfram markmið Seðlabankans. Við hljótum að staldra við og spyrja hvað orðið hafi um reynsluna frá 2008 og árunum þar á eftir. Er hún virkilega öllum gleymd nema þeim sem skipuðu björgunarsveitina?

Sem landsbyggðarkona get ég ekki annað en lýst miklum vonbrigðum með að ekki skuli aukið verulega fé í viðhald vega enda er ástand víða orðið grafalvarlegt og hvorki hægt að bjóða íbúum né ferðafólki upp á óbreytt ástand. Íbúar landsbyggðarinnar hljóta að spyrna við fótum vegna þessa og ekki síður þegar ljóst er að ekki verður staðið við fyrirheit um ljósleiðaravæðingu landsins.

Val til búsetu og uppbygging ferðaþjónustunnar velta á því að þessir hlutir séu í lagi.

Vandræðagangur hefur einkennt fálmkennda viðleitni hægri stjórnarinnar þegar kemur að ferðamálum. Áætlanagerð og stefnumörkun í málaflokknum er í molum. Hlaupið er til þegar allt er komið í óefni og fjármunir teknir fram hjá öllum samþykktum ferlum. Slæleg framganga ríkisstjórnarinnar í málefnum ferðaþjónustunnar í heild sinni vekur furðu og hlýtur maður að spyrja sig og ríkisstjórnina hvenær hún hyggist reka af sér þetta slyðruorð og hefja alvöruuppbyggingu hinna mikilvægu innviða ferðaþjónustunnar.

Hæstv. forsætisráðherra notar gjarnan hástemmd orð þegar hann talar um meint afrek sín og ríkisstjórnarinnar og nú eiga að rísa jafngildi heilu byggðarlaganna af félagslegu húsnæði fyrir fé úr ríkissjóði og sjóðum sveitarfélaganna. Ég vona svo sannarlega að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, sem enn boðar framlagningu fjöldamargra frumvarpa, sé í færum til að efna þessi miklu fyrirheit um ódýrt og öruggt leiguhúsnæði en þurfi ekki að þola skipbrot þeirra á blindskerjum samstarfsflokksins.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Það eru í raun og sannleika sóknarfæri á Íslandi nú um stundir í ljósi þess að allt frá árinu 2012 hefur staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar farið batnandi. Það er mikilvægt við slíkar aðstæður að kunna fótum sínum forráð þannig að úr verði sókn en ekki sóun. Það skiptir líka afar miklu að hafa jöfnuð og sanngirni að markmiði þannig að allur þorri ávinningsins falli ekki fáum í skaut eins og gjarnan er raunin þegar hægri stefnan er við völd, því að það búa ekki allir við öryggi, hæstv. forsætisráðherra. Hér á landi eru stórir hópar fólks, svo sem eftirlaunaþegar, sem þurfa nauðsynlega á kjarabótum að halda og skiptir afar miklu fyrir þá og einnig fyrir heildarhagsmuni þessa samfélags að þeir verði ekki látnir sitja eftir með óbættan hlut.

Efnahagshrunið 2008 laskaði og veikti íslenskt samfélag með ýmsu móti. Allt síðan það varð höfum við glímt við afleiðingar hægri stefnunnar og hinnar skefjalausu markaðshyggju sem olli því. Nú þegar sóknarfæri gefast á ný ber okkur að minnast fyrri reynslu og í stað þess að hleypa af stað neyslubylgju ætti að fjárfesta í innviðum. Í stað þess að lækka skatta ætti að beita þeim til þensluhjöðnunar og verja skattfénu til uppbyggingar á gjaldfrjálsri almannaþjónustu á sviði heilbrigðismála, menntamála og félagsmála. Með þeim hætti yrði grunnur tilveru okkar styrktur og við stæðum betur eftir en áður, bæði sem samfélag og sem einstaklingar. — Góðar stundir.